141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[18:11]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er langt um liðið frá því land var numið. Ég tel rétt að rifja upp hvaða reglur giltu um landnám. Þar var einmitt um að ræða takmarkanir á því hversu stóra hluta menn gætu sölsað undir sig vegna þess að jarðnæði var takmarkað og ekki hægt að leyfa einstökum mönnum að gína yfir öllu því svæði sem þeir gjarnan vildu. Með öðrum orðum eru það takmarkanir sem síðan eru venjuhelgaðar með nýtingu sem verða grundvöllur að eignarrétti. Þetta gerðist fyrir margt löngu og síðan hafa jarðir gengið í arf, verið seldar, gengið kaupum og sölum.

Í sjálfu sér var það að gerast varðandi fiskimiðin á Íslandi sem gerðist fyrir svo margt löngu varðandi nýtingu jarðnæðis að svo var komið að of margir voru orðnir um hituna og því varð að grípa til sambærilegra ráðstafana og gert var við landnám, þ.e. það var afmarkað og öðrum meinað, settar takmarkanir. Það er gert með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi til að tryggja að nýting auðlindanna verði sem best og sem mestur arður fáist af þeim.

Mjög margir hafa þá skoðun að Ísland sé í eigu íslensku þjóðarinnar en síðan sé þessi réttur, sem ég og hv. þingmaður erum mjög sammála um, eignarréttur bænda á jörðum sínum sem helgast af nýtingarsögu þeirra til margra alda. Áfram er samt uppi sú spurning hvort ekki séu enn uppi þau sjónarmið að hin eiginlega jarðrenta, rentan vegna auðlindarinnar sjálfrar, sem er orðin til vegna jarðarinnar sjálfrar, eigi ekki að vera í eigu þjóðarinnar, renna til ríkisins, en bændurnir eigi síðan að njóta þess (Forseti hringir.) hvernig þeir yrkja jörðina og hvað þeir gera sjálfir. Það er jú megininntakið (Forseti hringir.) í georgismanum svokölluðum og sósíalismanum svona almennt þegar kemur að umræðunni um náttúruauðlindir.