141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[18:23]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt sem hv. þingmaður benti á varðandi landnámið og þær reglur sem voru settar um þá nýtingu og það hversu mikið menn máttu sölsa undir sig.

Hvað varðar það þegar kvótakerfið var sett á held ég að ég sé ekki sammála hv. þingmanni um röð atburða. Þegar kerfið var sett á 1983–1984 tóku við nokkuð mörg ár þar sem menn gátu valið á milli kvóta og sóknarmarks, gátu þess vegna verið fyrir utan kvótakerfið og búið sér til veiðireynslu. Það voru alls konar möguleikar á því þannig að menn gátu farið inn í kerfið þegar lá fyrir að það yrðu einhvers konar takmarkanir. Það var samt sem áður opið í annan endann, var það reyndar mjög lengi. Síðar tóku við alls konar kerfi um minni bátana, dagakerfi, krókakerfi og annað slíkt þannig að það var svo sannarlega opið inn í kerfið, og það mjög lengi.

Í mínum huga er áfram sama staða uppi. Hvort sem menn eru að ræða um skóglendi, jarðnæði almennt, fiskimið, veiðar á villtum dýrum eða hvað það nú er hvílir grundvöllur eignarréttarins á nýtingarsögunni. Það er sú nálgun sem heimspekingar eins og John Locke og fleiri lögðu til grundvallar, þ.e. nýtingarsagan, að nýtingarsagan myndaði grundvöll að eignarréttinum. Sú vinna sem menn hafa lagt í auðlindina átti að verða grundvöllur eignarréttar, þar ætti hann uppruna sinn, þaðan sprytti hann og því ekki frá ríkisvaldinu. Ríkisvaldið getur síðan vegna hagsmuna sinna og heildarhagsmuna þjóðarinnar gripið til slíkra takmarkana á grundvelli nýtingarsögunnar en ekki farið þvert gegn henni eða látið eins og hún hafi ekki átt sér stað. Með öðrum orðum gat ríkið ekki með málefnalegum hætti úthlutað þessum veiðiréttindum til einhverra allt annarra (Forseti hringir.) en þeirra sem áttu veiðisöguna, þau hlutu að fara til þeirra sem áttu nýtingarsöguna.