141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[18:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Auður getur myndast á margan hátt, t.d. vegna skipulags í borgum. Þá geta allt í einu einhverjar jarðir orðið gífurlega verðmætar fyrir atbeina yfirvalda þannig að það er flóknara mál að átta sig á því hvað er einkaeign og hvað afleiðing af gerðum opinberra aðila.

Þegar menn fóru í að takmarka veiðarnar var það meira aðgerð til að hindra eitthvert hrun. Það var ekki eins og þegar Ísland var numið og menn sögðu fyrir fram: Sá sem gengur í kringum landið með kvígu í eftirdragi má eiga það land sem hann afmarkar. Þá lá það alveg fyrir, þá lá fyrir hvert menn stefndu. Það lá ekki fyrir í sjávarútveginum þegar kvótakerfið var tekið upp til bráðabirgða — fyrst var það til bráðabirgða — vegna þess að menn voru ekki komnir með endanlegt skipulag kvótakerfisins á teikniborðið. Þeir eru ekki einu sinni komnir með það enn, frú forseti. Það er enn verið að breyta kerfinu, taka upp strandveiðar, búa til potta og taka af þeim sem hafa fengið veiðiréttindi áður, þannig að kerfið er ekki fullmótað.

Ég vildi gjarnan að hv. þingmaður svaraði því hvers vegna svona óskaplega mikið regluverk er í kringum sjávarútveginn og hvort ekki væri miklu betra að nota markaðinn til að ákvarða verð eins og á öðrum sviðum, ákveða verð á veiðiheimildum og einstökum fisktegundum, þannig að hæstv. sjávarútvegsráðherra þurfi ekki að vandræðast með það hvort það borgi sig að veiða þessa fisktegund eða hina.