141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[18:27]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé best að láta markaðinn ákveða þetta sem mest. Það gerist einmitt ef fyrir liggur skilgreining á eignarrétti og hún sé skýrt fram sett. Það auðveldar markaðnum að finna hið svokallaða rétta verð svo maður noti tungutak hagfræðinnar. Við erum sammála þar, við hv. þm. Pétur H. Blöndal.

Ég hjó eftir einu sem fram kom í máli hv. þingmanns, akkúrat þessari spurningu: Hvernig á með að fara ef um er að ræða jarðnæði í nágrenni bæja eða borga sem allt í einu fær gríðarlegt verðgildi vegna þess að stjórnvöld taka ákvarðanir um skipulagsmál og mynda þar með mikil verðmæti vegna staðsetningar þeirrar jarðar? Við höfum fjölmörg svoleiðis dæmi. Eins og hv. þingmaður benti réttilega á er eignarrétturinn varinn og þar af leiðandi hagnast sá einstaklingur sem á jörðina sem er í nábýli við borg eða bæ. Þannig höfum við haft það og það er vegna aðgerða ríkisvaldsins. Erum við kannski þeirrar skoðunar að það ætti ekki að vera þannig og ef slíkt gerist ætti að taka slíkar jarðir eignarnámi? Mundi okkur hugnast það á þeirri grundvallarforsendu að ríkið hafi með aðgerðum sínum myndað verðmætin og eigi þess vegna rétt á að taka þetta til sín?

Það er stigsmunur, ekki eðlismunur, á því hvernig við námum land og hvernig við höfum síðan búið til eignarrétt varðandi fiskimiðin. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að kerfið hefur verið óljóst o.s.frv., en þó þannig að það hefur allan tímann stefnt í áttina að því að takmarka nýtingarréttinn. Og ég endurtek þetta: Sú takmörkun gat aldrei orðið öðruvísi en svo að ríkið horfðist í augu við að það væri nýtingarsaga og að þeir sem ættu nýtingarsöguna (Forseti hringir.) fengju til sín eignarréttinn. (Forseti hringir.) Það liggur í hlutarins eðli ef menn hafa trú á þeim skoðunum eða kenningum sem menn eins og John Locke (Forseti hringir.) og aðrir hafa lagt fram og sem ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um sem góðir og gegnir hægri menn.