141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

breytingar á skattkerfi til að styrkja íslenskan hugverkaiðnað.

118. mál
[18:46]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þætti gaman að vita af hverju við getum ekki breytt skattkerfinu í heild fyrir alla. Mér finnst felast einhver uppgjöf í því.

Í greinargerð með þessari tillögu er vísað í átakið Allir vinna sem er ágætt dæmi til að hugleiða vegna þess að það er mikilvægt að skoða það með tilliti til samkeppnisaðilanna. Sérhver atvinnugrein er í samkeppni við aðrar atvinnugreinar, t.d. um starfsfólk. Átakið Allir vinna, eins og kemur fram í greinargerð með tillögunni, var sett á laggirnar til þess meðal annars að draga úr svartri atvinnustarfsemi. Þetta tel ég varhugavert. Með þessu eru menn að viðurkenna að það hafi verið einhver svört atvinnustarfsemi á tilteknu sviði og í stað þess að komast að rót þess vanda er farið í að verðlauna þá sem hafa stundað svarta atvinnustarfsemi, það má líta á það þannig. Þarna eru einhverjar iðngreinar sem hafa fengið skattaívilnanir en eftir sitja margar aðrar iðngreinar. Ég nefni hárgreiðslukonur. Hvers eiga þær að gjalda, eða snyrtifræðingar eða aðrar starfsstéttir sem svo sannarlega urðu fyrir áföllum eftir hrunið?

Ég hvet hv. þingmann, flutningsmann þessarar tillögu, til að hugleiða aftur hvort ekki sé heillavænlegra að skoða skattkerfið í heild þannig að allir (Forseti hringir.) geti notið skattaívilnana.