141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

skýrsla McKinsey ráðgjafarfyrirtækisins um íslenska hagkerfið.

[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þótt margt sé fróðlegt í þessari skýrslu McKinseys og gagnlegt, sérstaklega uppleggið í henni, eru ýmsir þættir þarna sem menn eru ekki sammála um og þarf að ræða eins og hv. þingmaður nefndi, þar á meðal fiskveiðistjórnarkerfið.

Hvernig ég vil nálgast þetta? Ég vil að menn setjist að þessu borði og finni hvar samnings- og sáttafletir eru. Hvar er hægt að ná sátt og einingu um þau ýmsu verkefni sem þarna koma fram og reyndar fleiri sem ég vildi leggja upp með? Ég tel að breið fylking þurfi að koma að þessu borði þannig að skoðanir sem flestra fái að njóta sín og koma saman. Við eigum ekkert að flýta okkur í þessu. Ég tel ekkert sáluhjálparatriði að flýta þessu og fá einhverja niðurstöðu fyrir kosningar. (Forseti hringir.) Við eigum að taka okkur góðan tíma í þetta og finna út hvar sátta- og samningsleiðir eru í þessu máli. Það er af nógu að taka.