141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hef tvær spurningar fram að færa til hæstv. forsætisráðherra og báðar lúta að aðildarumsókn Íslendinga að ESB.

Í fyrsta lagi hafa rökin hjá þeim sem vilja halda þessari umsókn til streitu verið þau að halda beri áfram með umsóknina og að raunverulegi grunnurinn að því að leggja inn umsókn hafi verið sá að koma Íslandi í skjól efnahagslega. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort það sé álitlegt fyrir okkur sem fullvalda ríki að sækja um aðild að Evrópusambandinu þar sem endurskoðendur þess treysta sér ekki eitt árið enn til að endurskoða reikninga sambandsins. Mér telst til að þetta sé í átjánda sinn sem endurskoðendurnir treysta sér ekki til að undirrita efnahagsreikninga þess.

Í öðru lagi er það Króatía. Króatar eru nú í þessu aðildarferli og 16 lönd eru búin að samþykkja Króatíu inn í sambandið. Með því að Króatía gangi í Evrópusambandið fá Króatar hinn svokallaða embættismannakvóta, 149 embættismenn og 100 aðstoðarmenn, samtals 249 einstaklinga. Hver er áætlaður embættismannakvóti Íslendinga gangi Ísland í Evrópusambandið?