141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:43]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hann leynir sér ekki í umræðum, og hefur ekki gert, áhugi hv. þingmanns á Evrópusambandinu þótt það sé með öfugum formerkjum miðað við þá sem hér stendur. Ég tel að það sé mikill efnahagslegur ávinningur fyrir íslensku þjóðina að gerast aðili að Evrópusambandinu. Það er of langt mál að fara út í það hér.

Aðildarviðræðurnar ganga ágætlega, við eigum að vísu eftir að opna mjög erfiða kafla sem eru sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn, en ég tel að við höfum efnahagslegt skjól í því að ganga í Evrópusambandið, ekki síst ef við getum tekið upp evruna þó að það sé alveg örugglega töluvert langt í það, jafnvel þótt við gerumst aðilar. Það eru erfiðleikar í Evrópu núna sem ég vona að hægt sé að vinna á. Það er svar við fyrstu spurningunni um skjólið.

Varðandi embættismennina og Króatíu sem hv. þingmaður spyr um, ég man ekki hvað hún talaði um, einhvern fjölda embættismanna og 200 aðstoðarmenn sem koma inn með aðild Króatíu, hef ég bara ekki hugmynd um hvað þeir eru margir sem mundu koma hér inn ef við gerðumst aðilar að sambandinu. Ég tel að það skipti engu höfuðmáli. (Gripið fram í: Nú?)