141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

gjaldeyrishöft.

[10:48]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er auðvitað sammála hv. þingmanni um gjaldeyrishöftin, það er mjög mikilvægt að skipulega og vel sé farið í afnám þessara hafta. Ég tel að Seðlabankinn hafi gert það, unnið eins skipulega og hægt er að þeim málum.

Það hafa komið upp ýmsir erfiðleikar þegar Seðlabankinn hefur verið að aflétta þessum höftum, sérstaklega að því er varðar útboðin. Ég hygg að það sé eitt af því sem við þurfum að skoða í þinginu, hvort það sé hamlandi, eins og ég hef heyrt frá Seðlabankanum, að ákveðið hefur verið að aflétta höftunum um þarnæstu áramót og það komi í veg fyrir að útboðin gangi eðlilega fyrir sig sem er liður í afnámi hafta.

Það sem hv. þingmaður er að tala um, að erfitt sé að fá gögn frá slitastjórn og Seðlabankinn kvarti yfir því að fá ekki upplýsingar um samsetningu krafna og upphæðir, er auðvitað mjög bagalegt ef satt er. Ég hef ekki heyrt þetta áður og veit ekki hvort Seðlabankinn hefur borið sig upp við ráðherra bankamála eða fjármálaráðherra. Þetta mál hefur ekki verið tekið upp á þeim vettvangi sem við hittumst á einu sinni í viku, þ.e. í ráðherranefnd um efnahagsmál, þar sem fjallað er um öll slík mál. Ég mun af þessu gefna tilefni á næsta slíkum fundi, sem verður á mánudaginn, taka upp þessa spurningu frá hv. þingmanni og kanna hvort aðrir ráðherrar hafi verið upplýstir um þetta. Það er mjög bagalegt að ekki séu öll gögn uppi á borðinu sem þurfa að vera til þess að Seðlabankinn geti unnið skipulega að afnámi hafta. Vera má að slitastjórnin hafi einhver rök sem ég þarf þá að skoða áður en ég tjái mig frekar um þetta mál.