141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

tillögur ungra sjálfstæðismanna um aðgerðir í ríkisfjármálum.

[10:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég held að margar af þessum tillögum sem þarna koma fram gætu haft mjög skaðleg áhrif á íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Hvers vegna segi ég það? Vegna þess að við þurfum rannsóknir í landinu, við getum ekki treyst á það að fyrirtækin í landinu séu tilbúin að fjármagna rannsóknir háskólanna með þeim hætti sem ríkið gerir og það hefur aftur skaðleg áhrif á atvinnulífið og efnahaginn í heild.

Það hefur líka skaðleg áhrif ef við förum að skera niður sjóði á borð við Tækniþróunarsjóð sem þessi ríkisstjórn leggur til að verði tvöfaldaður á næsta ári. Við leggjum til að hann verði tvöfaldaður, þau leggja til að hann verði skorinn alveg burtu. Þarna er grundvallarmunur á sjónarmiðum vegna þess að við vitum hverju Tækniþróunarsjóður skilar. Hann skilar okkur verulegum tekjum í ríkissjóð vegna þess að hver einasta króna sem fer út úr Tækniþróunarsjóði skilar sér margfalt til baka. Þetta eru alltaf samstarfsverkefni og mótframlög og 75% af öllum verkefnum þaðan skila sér í frumgerð sem síðan þróast út í vöru á markaði og nýsköpun. Það væri að mínu mati sóun á fé að fara eftir þeim tillögum sem þarna eru lagðar til þegar á hólminn er komið.

Ég vona að þessar tillögur eigi ekki eftir að koma frá Sjálfstæðisflokknum þó að hann hafi boðað að við þyrftum að fara í frekari niðurskurð, (Gripið fram í.) heldur séu menn frekar að reyna að vekja athygli á einhverjum sjónarmiðum með svona tillögum. (Gripið fram í.) Í það heila finnst mér miklu skynsamlegra að fara þá leið sem þessi ríkisstjórn leggur til með nýrri fjárfestingaráætlun, þ.e. að leggja fé til Kvikmyndasjóðs vegna þess að við vitum hvaða umfangi það skilar. Við sáum síðast í sumar hverju það skilar í milljarðavís inn í þjóðarbúið aftur. Hið sama á við um rannsóknirnar í landinu, þær eru undirstaða atvinnulífsins inn í framtíðina.