141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

tillögur ungra sjálfstæðismanna um aðgerðir í ríkisfjármálum.

[10:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Svona almennt held ég að í því fjárlagafrumvarpi sem núna er til meðferðar í þinginu og líka þeim tillögum sem eru að líta dagsins ljós milli umræðna séu þau góðu tíðindi að gerast að eftir þriggja ára varnarbaráttu fyrir ríkissjóð, vegna þess að við þurftum að loka risafjárlagagati, sjáum við loksins svigrúm til að sækja fram á mikilvægum sviðum. Við erum að fara að sækja fram á sviði heilbrigðismála með framlögum til tækjakaupa á Landspítalanum, með tvöföldun á framlögum til Kvikmyndasjóðs, tvöföldun á framlögum til Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknasjóðs. Þetta eru sóknarfjárlög sem við fjöllum um hér miðað við það sem á undan er gengið.

Sá niðurskurður sem við höfum þurft að fara í hefur að miklu leyti verið gríðarlega sársaukafullur og sums staðar erum við komin langt inn að beini. Þess vegna er gott þegar við erum farin að geta skilað að einhverju leyti til baka. Hluti af þessum niðurskurði hefur líka verið nauðsynlegur og komið sér vel fyrir rekstur ríkisins. Ég held að þeir sem koma með þær tillögur sem fjallað var um áðan hljóti að geta fagnað einhverjum af þeim ráðstöfunum (Forseti hringir.) sem við höfum ráðist í til hagræðingar.