141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

kjaramál aldraðra.

[11:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt og ástæða til að fagna því sem hæstv. ráðherra segir að til standi að breyta fyrirkomulaginu um næstu áramót og færa það til núgildandi verðlags, en það er auðvitað mikið umhugsunarefni að þetta skuli þrátt fyrir allt ekki hafa fylgt neinum verðbótum í fjögur ár, 2009, 2010, 2011 og 2012. Við höfum séð ástæðu til þess að láta almannatryggingabæturnar fylgja verðbótum, að minnsta kosti að einhverju leyti. Þær hafa hækkað um tæplega 12%, ef ég man þetta rétt, og þess vegna er undarlegt að þessi þáttur málsins hafi ekki fylgt eftir.

Síðan er það hitt málið sem hæstv. velferðarráðherra vekur réttilega athygli á, þ.e. sú staðreynd að það fólk sem safnað hefur fé í gegnum lífeyrissjóði og lagt til hliðar til að eiga til efri áranna, skuli fá svo mikla og nánast algera skerðingu á lífeyrisgreiðslum sínum. Það fólk afsalar sér að vissu leyti ákveðnum lífsgæðum þótt auðvitað séu mikil lífsgæði fólgin í því að dvelja (Forseti hringir.) á dvalar- og hjúkrunarheimilum. En á vissan hátt afsalar fólkið sér lífsgæðum með því að ætlast er til þess með lögum sem við höfum öll staðið að að láta af hendi alla fjármuni sína umfram þessar 65 þús. kr., sem fara þá upp í rúmlega 70 þús. kr. á næsta ári.