141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og alveg sérstaklega hvatningu hans til aukins aga.

Ég ætla að spyrja að hlutum sem ég vona að menn taki ekki einhvern veginn sem flokkspólitískum enda hefur það viðgengist lengi. Það er spurningin um mismuninn á fjáraukalögum og ríkisreikningi. Á bls. 3 í nefndaráliti 1. minni hluta kemur fram á línuriti, ef maður les í töfluna, að þessi munur var 40 milljarðar árið 2010 en er núna 47 milljarðar, ég les það út úr teikningunni.

Þetta eru fjármunir sem menn hafa eytt í ríkissjóði án þess að til þess væri heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum. En í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Þetta er því stjórnarskrárbrot.