141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að um mikið hagsmunamál er að ræða eins og ég nefndi í ræðu minni áðan.

Við gerum ráð fyrir hundruðum milljóna á hverju einasta ári í fjáraukalögum til útgjaldaaukningar til S-merktra lyfja og vegna magnaukningar. Magnaukningin er vandamál sem flestar þjóðir, held ég, stríða við sem og aukinn lyfjakostnaður. Það er sömuleiðis rétt sem hv. þingmaður nefndi að við höfum dregið heldur úr innleiðingu nýrra lyfja hvað þetta varðar.

Rætt hefur verið um það í fjárlaganefnd, þó að það heyri kannski ekki beint undir nefndina sem slíka, hvernig á að standa að innkaupum á lyfjum, til dæmis að gera það í samráði við nágrannaþjóðir okkar, reyna að sameinast betur um það hér heima hjá stofnunum hvernig á að stýra innkaupum þannig að þau verði ódýrari. En það er í sjálfu sér ekkert í tillögugerð eða á borði okkar fjárlaganefndar að útfæra það sérstaklega en við höfum gert kröfur um að fá slíkar útfærslur og að gripið verði til ráða til að draga úr hinni gríðarlegu aukningu sem þarna er um að ræða.