141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það sem ég vildi draga fram í þessu andsvari er það að áætlanir Sjúkratrygginga Íslands hafa gengið eftir. Magnaukningin hefur ekki verið viðurkennd í þinginu. Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því.

Einnig hefur komið fram af hálfu Sjúkratrygginga Íslands þar sem fulltrúar þeirra mættu á fund fjárlaganefndar og bentu á að eigi fjárlög stofnunarinnar að ganga eftir verði þingið að bregðast við á þann hátt að breyta lögum eða reglugerðum. Það kom einmitt fram í mikilli gagnrýni Ríkisendurskoðunar og í þeirri umræðu sem átti sér stað í fjárlaganefnd að velferðarráðuneytið hefur akkúrat ekki gripið til þeirra ráðstafana sem eru nauðsynlegar til að þjónustuþörfin sé í samræmi við fjármagnið, eða fjárlögin. Það er gríðarlega mikilvægt að grípa inn þegar menn setja fram fjárlög. Við hv. þingmaður erum algjörlega sammála því að þingið þarf að bregðast við, og þá ráðuneytið í þessu tilfelli, til að það gangi eftir, þ.e. annars vegar fjármagn og hins vegar það þjónustuframboð sem er í boði.