141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[13:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alltaf jafnmikil stemning þegar við erum að ræða fjárlög, fjáraukalög, lokafjárlög eða ríkisreikning. Það er að sjálfsögðu þétt setinn bekkurinn eða hitt þó heldur, hér eru eins og venjulega bara örfáir þingmenn í sal. Ég held að það skipti ekki máli þótt verið sé að halda prófkjör og forvöl um allt land í mörgum stjórnmálaflokkum, þetta er það venjubundna. Hér sitja hv. þingmenn úr fjárlaganefnd en örfáir eru á rölti um húsið. Það er kannski vegna þess að verkefnið er það lítið og augljóst að það sé auðleysanlegt og menn hafi af því litlar áhyggjur.

Ég vil þó segja í upphafi máls míns að ég tek undir það sem hv. þm. Björn Valur Gíslason sagði í framsögu sinni og snýr að því hversu mikilvægt það er að ná fram aga í ríkisútgjöldum. Það er að mínu mati gríðarlega mikilvægt mál því að verkefnin fram undan, eins og ég sé þau, eru það stór og það mikil að það verður að taka þau mjög traustum og föstum tökum.

Ég varð dálítið hugsi í morgun yfir fyrsta lið á dagskrá, óundirbúnum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra, þegar ég hlustaði á hæstv. fjármálaráðherra tala um að hér væru blóm í haga, allt bjart fram undan og að nú gætu menn farið að spýta í lófana og eyða meiri peningum. Ég held að það sé ekki raunstaðan, ég sé hana ekki þannig fyrir mér. Ég varð líka mjög hugsi þegar ég heyrði viðbragð hæstv. forsætisráðherra við úttekt í Morgunblaðinu í morgun vegna þeirra athugasemda sem Seðlabankinn gerir við aðgang að upplýsingum úr slitastjórnunum. Það hafði ekki verið kynnt fyrir hæstv. ríkisstjórn og síðan ég hlustaði á þetta hef ég verið að hugsa um hvernig heildaryfirsýnin er yfir öll málin.

Ég viðurkenni fúslega, eins og ég hef svo sem gert áður í þessum stól þar sem ég sit í hv. fjárlaganefnd, að ég hef ekki heildaryfirsýn yfir öll fjármál ríkisins. Ég hef mjög góða yfirsýn yfir það frumvarp sem við erum að fjalla um hér, þekki það og get nánast lesið það upp án þess að opna það, en heildaryfirsýn yfir ríkisfjármálin hef ég ekki. Samt á ég sæti í þessari nefnd og ég held að það sé seint hægt að saka mig um að mæta illa á fundi eða lesa illa gögnin mín. (Gripið fram í.) Það held ég að flestir geti staðfest. Til upprifjunar vil ég líka segja að mér brá mjög mikið þegar ég heyrði í fréttum að Seðlabankinn hefði miklar áhyggjur af svokölluðu skuldabréfi milli gamla og nýja Landsbankans sem Seðlabankinn taldi geta ógnað fjármálastöðugleika landsins. Það var mat Seðlabankans. Við vitum af þessum snjóhengjum gagnvart greiðslum út úr þrotabúunum. Við vitum af þessum aflandskrónum en heildaryfirsýnina hef ég ekki. Það er mikilvægt að það komi fram að meðan verklagið er eins og það hefur verið, jafnvel undanfarna áratugi, held ég að það sé erfitt að ætlast til þess að hv. þingmenn í fjárlaganefnd geti gefið þinginu mjög nákvæma skýrslu um það hvernig staða ríkisfjármála er í heild sinni ef það er á annað borð ætlast til þess af þeim, sem ég tel að sé og eigi að vera.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar eru verkefnin gríðarlega mikilvæg, við getum nefnt lífeyrisskuldbindingar upp á á fimmta hundrað milljarða og við getum nefnt Icesave-málið sem enginn veit hvernig fer. Það er mjög mikilvægt að miklu fastar verði tekið á þessum málum og að allir komi að því, hvort sem eru stjórn, stjórnarandstaða, aðilar vinnumarkaðarins eða aðrir aðilar sem hafa eitthvað um þessi mál að segja og geri með sér eins konar samfélagssáttmála til að ná tökum á málunum.

Ég segi fyrir mína parta að það kæmi mér ekki í sjálfu sér á óvart að innan einhverra ára yrði jafnvel annað hrun. Það kæmi mér ekki sérstaklega á óvart. Þess vegna held ég að það sé gríðarlega mikilvægt að við reynum að taka höndum saman og skilgreina vandann. Mér finnst þingið og framkvæmdarvaldið oft og tíðum ýta þessu töluvert á undan sér.

Ég ítreka það sem ég sagði, ég hef ekki heildaryfirsýnina, ég hef hana bara ekki. Ég vil að það komi hér skýrt fram. Þess vegna fagna ég því og tek undir það sem hv. þm. Björn Valur Gíslason sagði í framsöguræðu sinni um mikilvægi þess að ná fram aga í ríkisfjármálum. Það er númer eitt, tvö og þrjú að sjá heildarmyndina, ná aganum og setja okkur á þann stað sem við þurfum að vera á.

Ég sný mér þá að því sem kemur fram í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Án þess að ég ætli að fara að ræða hverja einustu tillögu sem þar kemur fram vil ég þó fyrst segja að það er búin að vera þverpólitísk sátt í hv. fjárlaganefnd í mjög langan tíma. Það er mjög gott samstarf á milli þeirra sem þar sitja, sama í hvaða flokki þeir eru. Við höfum áorkað ýmsu og náð fram ákveðnum breytingum til batnaðar en að mínu mati þurfum við að halda áfram á þeirri braut og herða okkur mjög.

Mér finnst við komin á þann tímapunkt að við séum búin að tala nóg um þetta, en ýmislegt gott hefur náðst fram og við erum farin að fjalla öðruvísi um mál. Við erum núna að vinna að máli sem snýr að mörkuðum tekjum, það er þverpólitísk samstaða, mikilvæg til þess að ná aganum, en í þessu tilfelli hér sem við förum yfir fjáraukalögin hefði ég viljað hafna öllum tillögum sem ættu ekki heima þar. Ég held að við þurfum að stíga það skref, það er mín skoðun, þannig að framkvæmdarvaldið hrökkvi það við að þingið sé ekki, ég vil ekki nota neikvætt orð yfir það en ég finn í huga mínum ekkert annað orð en afgreiðslustofnun. Það þarf einhvern veginn að láta menn hrökkva við þannig að tillögur sem fara í gegnum ríkisstjórn fari ekki sjálfkrafa í gegnum Alþingi. Þannig er það væntanlega búið að vera um áratugaskeið. Þessu þurfum við að breyta og ég hefði viljað stíga það skref núna, taka bara tillögurnar, sortera þær sem ættu heima hérna undir, henda hinum og gera þá kröfu að þær tillögur sem yrðu eftir uppfylltu þau skilyrði sem sett eru í fjárreiðulögunum sem snúa að því hvernig á að nýta fjáraukalögin. Það hefði verið skynsamlegt að mínu mati en það kemur kannski í einhverjum næstu skrefum, ég veit það ekki. Væntanlega mun ég ekki taka þátt í þeim því að fjáraukalög verða ekki rædd hér fyrr en á næsta ári og þá verð ég horfinn héðan af braut.

Það sem ég vil þó segja sem snýr að fjárlögunum og fjáraukalögunum er að í raun og veru lít ég þannig á að fjárlögin plús fjáraukalögin, sem eru þá heildarniðurstaðan og stefnumið ársins, séu eiginlega bara væntingar um það sem muni gerast. Eins og við höfum séð í ríkisreikningi undanfarinna ára hefur niðurstaða hans verið allt önnur. Jú, það hefur verið bent á einskiptisaðgerðir sem snúa að ríkisábyrgðum, Íbúðalánasjóði og margt mætti telja. Það hafa líka verið pósitífir þættir þar inni sem snúa að til dæmis svokölluðu Avens-samkomulagi þegar keypt voru jöklabréfin í seðlabankanum í Lúxemborg. Við megum heldur ekki gleyma stærsta liðnum sem ég mun koma betur að á eftir, þeim sem snýr að vaxtagjöldum ríkissjóðs.

Ég verð að vara við þeim væntingum að þetta gangi eftir, sérstaklega í ljósi ummæla hæstv. fjármálaráðherra í morgun. Það sem kemur þó fram í fjáraukalögunum og hefur gengið eftir er tekjuhluti fjárlaganna. Fram hjá því er ekki hægt að líta. Hann gengur eftir, og rúmlega það.

Vandamálin eru hins vegar alltaf útgjaldaþátturinn vegna þess að útgjöldin fara alltaf úr böndunum. Það er auðvitað mjög slæmt. Í gegnum fjáraukalögin bæði 2011 og 2010, þó sérstaklega á árinu 2010, sést að vaxtagjöldin hafa verið lægri en reiknað var með. Auðvitað vitum við að einn stærsti þátturinn í ríkisrekstrinum er vaxtagjöldin vegna þess að skuldir ríkissjóðs eru svo gríðarlega miklar. Við erum núna að borga í kringum 15–16% af tekjum ríkissjóðs í vaxtagjöld.

Það sem gerðist í vaxtagjöldunum frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram og fram að fjáraukalagafrumvarpinu var að gert var ráð fyrir að vaxtagjöldin mundu hækka um 3,1 milljarð. Síðan var gerð breyting við 2. umr. þar sem áætlað var að þau mundu dragast saman um 4,4 milljarða sem þýðir í raun 1,3 milljarða í mínus miðað við það sem gert var ráð fyrir í upphafi. Þetta eru ofboðslegar færslur. Það geta verið eðlilegar skýringar á því að allar upplýsingar liggi ekki alveg fyrir í byrjun en maður verður frekar órólegur yfir þessu.

Þá langar mig að ræða aðeins frekar þá heildaryfirsýn sem við höfum. Við afgreiðslu fjárlaga 2011 vissi fjárlaganefnd af því að við vorum með svokallaða lánalínu frá samstarfsþjóðunum, þ.e. Norðurlandaþjóðunum, sem féll niður um síðustu áramót. Þegar fjárlögin voru afgreidd í desember fyrir tæpu ári lá ekki fyrir hvort tekin yrði ákvörðun um að draga þessi erlendu lán hjá Norðurlandaþjóðunum. Þess vegna voru vaxtagjöldin ekki sett inn í fjárlög 2012 sem annars hefði átt að gera. Síðan gerðist það milli jóla og nýárs þegar menn höfðu sest betur yfir málið að þeir gátu ekki fengið framlengingu á lánalínunni sem slíkri. Það eru auðvitað miklu lægri vextir á lánalínu en þegar lánin hafa verið dregin en þá var tekin ákvörðun um það, á síðustu dögum ársins, að draga á þessa lánalínu upp á tugi milljarða.

Hvað gerðist síðan í framhaldinu? Förum aðeins yfir það. Þegar búið var að draga á lánalínuna í lok árs 2011 var tekin ákvörðun um það í mars á árinu 2012 að greiða um 45 milljarða inn á svokölluð Norðurlandalán eða lán samstarfsþjóðanna. Síðan ekki seinna en í maí 2012 var farið að bjóða út skuldabréf upp á 1 milljarð bandaríkjadala sem er um 124 milljarðar á genginu í maí og þá voru greiddir niður 80 milljarðar af lánum Norðurlandanna. Maður er mjög hugsi yfir öllum þessum ákvörðunum. Vaxtakostnaðurinn við það að fara í útboð á tíu ára láni í bandaríkjadollurum sem var gefið út í maí er miklu meiri, um helmingi meiri en á lánum Norðurlandanna. Þetta eykur kostnað ríkissjóðs um eina 3 milljarða.

Það sem ég er að draga fram í þessari umræðu og þessari ræðu minni er að það er ákveðið í lok árs 2011 að draga á lánalínuna. Þá ákvörðun var ekki hægt að taka hálfum mánuði fyrr. Í mars árið eftir eru greiddir 45 milljarðar inn á lánin og síðan er gefið út tíu ára skuldabréf með helmingi óhagstæðari vöxtum og greitt inn á lán með gjalddögum 2016–2018. Þetta kostar okkur nokkuð marga milljarða á þessum tíma. Þess vegna er maður rosalega hugsi yfir þessum hlutum. Síðan væri auðvitað æskilegt ef heildaryfirsýnin okkar væri þannig að við í hv. fjárlaganefnd gætum verið alveg sannfærð og róleg yfir þessum hlutum. Ég er það því miður ekki.

Síðan er annað mjög dapurlegt sem ég kom aðeins inn á í upphafi ræðu minnar og sneri að því að það var auðvitað slegið af þeim kröfum að ná jöfnuði í ríkisfjármálum um eitt ár á þeim forsendum að árangurinn væri það mikill orðinn að hægt væri að slaka á. Það held ég að hafi verið mjög mikil mistök. Það voru mjög mikil mistök að slaka á. Við hefðum átt að halda áfram að reyna að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Ég held reyndar að það séu ekki miklar pólitískar deilur um mikilvægi þess því að allir sjá eftir þeim vöxtum sem fara í að greiða af skuldum ríkisins. Í stefnumörkun í ríkisfjármálum í skýrslu þáverandi hæstv. fjármálaráðherra árið 2009 komu markmiðin mjög skýrt fram.

Ég var mjög sammála þeim sem sögðu að nú þyrfti að standa í lappirnar og taka þetta föstum tökum, ef ég má orða það þannig, það væri það mikilvægt til að ná niður skuldum ríkissjóðs. Síðan hefur verið slakað á, því miður, og það er ekki gott. Ég vil líka benda á það sem var tekið nýtt inn hjá núverandi stjórnvöldum sem ég var mjög sáttur við og ánægður með, þ.e. þegar settur var inn svokallaður óvissusjóður, óvænt og ófyrirséð eins og stundum er kallað, til þess að reyna að hafa raunútgjöldin í samræmi við væntingarnar í fjárlögum og fjáraukalögum. Það voru ekki allir sammála um þetta en ég var einn af þeim sem studdu hæstv. fjármálaráðherra mjög í því máli og kom því skýrt á framfæri hér að þetta teldi ég mjög skynsamlegt til að niðurstaðan yrði það sem við þekktum að mundi gerast í fjárlögum þannig að við gætum brugðist við, þ.e. launabreytingum, gengisbreytingum og síðan einhverjum náttúruhamförum og þess háttar. Síðan hafa einstakir þingmenn gert athugasemdir við það hvernig óvissusjóðurinn er nýttur en ég hef ekki gert það. Ég hef farið mjög vandlega yfir það hvernig hann er nýttur og ég ætla ekki að gera neinar efnislegar athugasemdir við það. Aðalatriðið er að við höfum borð fyrir báru.

Hv. fjárlaganefnd mun funda með Íbúðalánasjóði þegar skýrsla um vandann kemur innan úr stjórnkerfinu, það er verið að bíða eftir henni.

Það sem kallar líka á mann er það sem ekki er í fjáraukalögunum. Kannski kemur það fram við 3. umr. Væntanlega verður búið að klára skýrsluna í næstu viku þannig að hægt verður að taka tillit til hennar. Það kemur hins vegar mjög skýrt fram í nefndaráliti okkar að vandinn sem blasir við er á bilinu 14–16 milljarðar til að koma eiginfjárhlutfallinu upp í 5% eins og gert er ráð fyrir í reglum sjóðsins. Það er auðvitað mikilvægt að það verði skoðað mjög vandlega og farið yfir það, auðvitað treysti ég því að það verði gert og hef engar efasemdir um að svo verði.

Síðan vil ég þó enda á jákvæðari nótum en ég hef kannski verið. Ég fagna því sem snýr að tækjakaupum til Landspítalans. Það tel ég að hafi verið skynsamleg ákvörðun af hálfu stjórnvalda. Þörfin kallar á mann, það vita allir um hana, og ég held að það sé líka mjög mikilvægt að stjórnvöld geri eins konar áætlun um það. Þessar áætlanir eru væntanlega til í þessum stofnunum en ég held að stjórnvöld þurfi að gera áætlun um hvernig staðið skuli að því að byggja aftur upp tækjakost Landspítalans þannig að við getum sætt okkur við hann. Það held ég að sé gríðarlega mikilvægt. Við vitum hvað gerist þegar stofnanirnar fá takmarkað fé, þær fara jafnvel í dýrari lausnir sem felast í því að fá tæki á kaupleigum eða rekstrarleigum eða hvað þetta heitir og það kostar meiri peninga. Ég held að það sé skynsamlegra að ná sátt og ég efast ekki um að við getum sloppið við að pexa í pólitísku argaþrasi á Alþingi um mikilvægi þess máls.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi, það er gríðarlega mikilvægt að við gerum einhvern samfélagssáttmála þar sem við reynum að greina þennan vanda eins vel og við getum og teljum okkur vera það upplýst og með þær upplýsingar sem við þurfum. Ég hef verulega miklar áhyggjur af stöðu ríkissjóðs og ríkisfjármálunum í heild sinni, það eru mörg óveðursský á lofti og þau ber að taka alvarlega. Við hljótum að hafa lært af því þegar hér var rætt fyrir árið 2008 um fjölda óveðursskýja á lofti og þá megum við ekki kveða þær raddir niður. Það er mikilvægt að við eigum hér málefnalega umræðu um ríkisfjármálin.