141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mikilsverðar upplýsingar. Nú er spurning hvort fjárlaganefnd, þegar hún fær þetta til skoðunar milli 2. og 3. umr., fylgi ekki þeirri stefnu sem formaður nefndarinnar talaði um hérna, að auka agann í ríkisfjármálum. Einmitt með því að taka á þessum vanda sem hv. þingmaður nefndi. Það eru nokkuð margir pottar eða keldur sem menn geta dottið ofan í í þessu máli. Ég held að menn ættu að taka sér tak og horfast í augu við það. Til dæmis A-deild LSR — 47 milljarðar. Þetta á ekki að vera þarna samkvæmt fyrri lögum, þetta átti að vera sjálfbært. Svo ég tali nú ekki um 300 eða 400 milljarðana hjá B-deildinni.

Svo er það Íbúðalánasjóður. Hann hleypur ekkert frá okkur, vandinn fer ekki neitt þótt við gleymum honum í eitt ár eða tvö. Og margt fleira. Ég vil nefnilega að hv. fjárlaganefnd taki á honum stóra sínum og horfist í augu við vandann og kenni ekki neinum um heldur komi einu sinni með raunhæf fjáraukalög.