141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er með miklum trega að ég tek þátt í þessum umræðum. Ég bað í morgun undir liðnum um fundarstjórn forseta um að málinu yrði frestað vegna þess að meiri hluti fjárlaganefndar hefur ekki enn þá vísað fjáraukalögum 2012 til ríkisendurskoðanda til yfirlestrar og athugasemda eins og segir fyrir um í lögum nr. 86/1997. Í staðinn er málið keyrt áfram vegna þess að búið er að setja það á dagskrá þingsins. Ég tel að hér sé verið að fórna miklum hagsmunum því að ekkert liggur á að gera þetta. Það er von mín að Ríkisendurskoðun komi inn í umræðuna með umsögn um fjáraukalög 2012 og er þá rétt að hafa jafnvel samband við endurskoðunina sjálfa til að athuga hvort þetta sé í samræmi við lög. Nú er stjórnarmeirihlutinn að brjóta niður það trúnaðartraust sem ríkt hefur á milli Alþingis og Ríkisendurskoðunar í óþökk meiri hluta þingmanna.

Hér hefur einn þingmaður sem er formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Björn Valur Gíslason, farið í stríð við opinbera stofnun og bitnar það á þingstörfunum. Það er ófært. Úr því að ég sé annan formann nefndar sitja í hliðarsal, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, þá hefur hún líka lýst yfir stríði við Ríkisendurskoðun sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en í þeirri nefnd sit ég. Það er ófært að ekki skuli vera eðlileg samskipti á milli þessara tveggja stofnana, sérstaklega í ljósi þess að við ræðum fjáraukalög og mikil ábyrgð fylgir fjárveitingavaldinu á þingi. Það er bagalegt ef réttir aðilar fá ekki að gefa álit sitt á fjárlagafrumvörpum sem fara í gegnum þingið vegna andstöðu nokkurra einstaklinga í ríkisstjórnarflokkunum.

En hvað er hægt að gera? Jú, ég fór yfir það áðan. Það er kannski hægt að fara fram á það við Ríkisendurskoðun að hún skili inn sjálfstæðri umsögn um fjáraukalögin. Við sjáum hvað setur á milli 2. og 3. umr. En ég óska eftir því formlega að frumvarpið fari í fjárlaganefnd milli 2. og 3. umr. til frekari umræðu og skoðað verði hvernig hægt sé að tryggja að farið verði að lögum í þessu máli samkvæmt lögum um ríkisendurskoðanda.

Margt hefur verið sagt í umræðunni. Ég tek undir þær áhyggjur sem fram hafa komið að vissulega eru óveðursský á lofti. Þingið hefur verið leynt upplýsingum um fjárhagsstöðu ríkisins, um stöðu Seðlabankans, um ríkisábyrgðir og um skuldastöðu ríkisins út á við og eins og farið var yfir í ræðu áðan var vitað að þessi 280 milljarða skuldbinding sem þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, lagði á íslensku þjóðina í gegnum Landsbankann þegar samið var um Icesave á sínum tíma, yrði þungur baggi fyrir þjóðarbúið. Nú hefur komið í ljós að það raskar jafnvel fjármálastöðugleika. Mikil er ábyrgð ráðherra. Í því sambandi er rétt að minna á að í gær var samþykkt með 24 atkvæðum að rannsaka einkavæðingu bankanna sem átti sér stað árið 2002 en ekki er verið að hugsa um að rannsaka til dæmis gjörðir ráðherra Vinstri grænna. Þá er ég að vísa í hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, og þær tilfærslur sem hann gerði og bar ábyrgð á í stjórnartíð sinni. Tek ég það sem dæmi fyrir utan það sem komið var í veg fyrir, þ.e. að kasta allri Icesave-skuldinni á herðar íslensku þjóðinni. Það urðu þá bara eftir 280 milljarðar inni í nýja Landsbankanum sem ráðherra ábyrgðist.

Þar sem búið er að fara efnislega vel yfir fjáraukalögin almennt langar mig til að fara aðeins í þær breytingartillögur sem liggja fyrir á milli umræðna. Ég vil benda á sóun sem ég tel að eigi sér stað á fjármunum ríkisins. Ef við byrjum á bls. 3, því að ég ætla að taka þetta í réttri röð, þá fer kostnaðurinn við tilraunastarfsemi hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur á stjórnarskránni sífellt hækkandi. Í fjáraukalögum ársins er farið fram á 10 millj. kr. greiðslu til sérfræðiráðgjafar fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þar er líklega um að ræða hin svokölluðu lögfræðingateymi og gefin fjárheimild til að greiða þeim lögfræðingum sem tóku þá vinnu að sér að lesa yfir drög stjórnlagaráðs, drögin sem ekki var hægt að hafa tilbúin fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þar eru 10 millj. kr. Strax á eftir kemur 20 millj. kr. framlag vegna kynningarefnis fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um endurskoðun á stjórnarskránni. Þarna eru strax komnar 30 millj. kr. sem bætast við þann 1.300 millj. kr. stabba sem bröltið sem hæstv. forsætisráðherra stendur fyrir hefur þegar kostað okkur. Samtals eru tillögur um 226 millj. kr. aukningu hjá æðstu stjórn ríkisins.

Forsætisráðuneytið sjálft fer fram á 13 millj. kr. hækkun. En það er merkilegt þegar komið er inn á utanríkisráðuneytið sem fer fram á 17,4 millj. kr. hækkun að þá er sérstök fjárveiting til þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins. Okkur var sagt í upphafi að þýðingamiðstöðin yrði eingöngu greidd af Evrópusambandinu en þarna er verið að setja inn fjárheimild til að ráðstafa 131.200 evra styrk frá Evrópusambandinu vegna þýðingarverkefna. Það sem gleymdist að segja bæði þingmönnum og þjóðinni allri er að þýðingamiðstöðin tekur á móti styrk frá Evrópusambandinu en ríkið þarf að leggja sömu upphæð á móti. Eins er það með hina svokölluðu IPA-styrki. Það er merkilegt þegar litið er yfir nefndarálitið, að þar eru alla vega tveir liðir sem hafa verið rangt færðir og sem verið er að leiðrétta í þessu frumvarpi frá fjáraukalögum 2011. Veitt var 37 millj. kr. fjárheimild til Kötlu jarðvangs verkefnisins. Hún var sett inn í fjárlög 2012. Það var styrkur frá Evrópusambandinu. Svo kemur síðar í ljós að ekki á að færa það inn í fjárlög vegna þess að um er að ræða aðila sem standa fyrir utan A-hluta ríkissjóðs. Það var meira að segja ekki alveg á tæru í fjármálaráðuneytinu hvernig fara ætti með þennan 5.000 millj. kr. styrk sem Evrópusambandið sturtaði yfir okkur bara vegna þess að við erum í þessu aðlögunarferli, því að þetta er auðvitað ekkert annað en aðlögun. En batnandi mönnum er best að lifa.

Ég bendi á það að hér fer utanríkisráðuneytið fram á rúmlega 21 millj. kr. hækkun á fjárlögum út af þýðingamiðstöðinni.

Ég spyr, virðulegi forseti: Af hverju tekur þýðingamiðstöðin til sín svona mikið fjármagn þegar þjóðin er á móti því að ganga í Evrópusambandið? Þvílík peningasóun. Svo er reynt að halda því fram á hverjum degi að ekki sé um aðlögun að ræða. Hvað höfum við að gera með að búið sé að þýða allan lagabálk Evrópusambandsins þegar kemur að þeim degi að við fáum að kjósa Evrópusambandið út af borðinu? Hvað höfum við að gera með það á íslensku? Það er peningasóun, peningasóun, peningasóun og fingraför Evrópusambandsins finnast alls staðar í fjárlögunum, í öllum ráðuneytum og allri lagasetningu sem kemur fyrir hið háa Alþingi Íslendinga, fyrst talað er um að ekki sé um aðlögun að ræða.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hið grafna, sem heitir nú atvinnuvegaráðuneyti, fer fram á 27 millj. kr. hækkun. Ég las um það í fréttum að farið væri fram á 27 millj. kr. hækkun vegna þess að nú sé allt í einu búið að taka ákvörðun um að ráða erlenda ráðgjafarstofu í tengslum við viðræður Íslands um makrílveiðarnar. Ég segi aftur: Batnandi mönnum er best að lifa varðandi það að fá hjálp við að verja réttindi okkar, en það væri nú skemmtilegra að við þingmenn fengjum að vita af því áður en við lesum um það í blöðunum og kannski fá að vita ástæðuna fyrir því út af hverju allt í einu er stokkið af stað núna og ráðgjöf keypt vegna makríldeilnanna. Í því felst líka kynning á málstað okkar varðandi Icesave á erlendum vettvangi. Nú á haustdögum, þegar jólin eru að koma, fer ríkisstjórnin allt í einu að hafa áhyggjur af því að kynna málstað okkar vegna Icesave. Þetta er eins og tröllið sem hefur sofið í heila öld og vaknar allt í einu upp við það núna að fara í einhverja kynningarherferð.

Hverju á kynningarherferðin varðandi makríldeiluna að skila? Við eigum rétt samkvæmt alþjóðarétti. Makríllinn er ný auðlind í lögsögu Íslands. Við eigum hann innan 200 mílnanna, við eigum hátt í 17% af heildarmakrílkvóta Evrópusambandsins. Þeir ætla að pína okkur langt niður fyrir 5%. Nei, þá stekkur hæstv. atvinnumálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fram og speglar sig með einhverri markaðsskrifstofu til að kynna málstað sinn. Það er bara svo margt sem maður skilur ekki í lífi þessarar ríkisstjórnar. Sem betur fer er líftími hennar farinn að styttast allverulega því að það er alveg sama hvar drepið er niður, ekkert er kynnt fyrir þingi eða þjóð og allt er tilviljanakennt og fálmkennt, verð ég að segja.

Svo er það eitt sem ég undra mig mjög mikið á, það eru útgjöld innanríkisráðuneytisins sem þenjast alveg svakalega út í frumvarpinu, eða um tæpar 326 millj. kr. Ég átta mig ekki alveg á því að farið er fram á 15 millj. kr. fjárveitingu til að mæta halla vegna útgáfu ökuskírteina á þessu ári og því síðasta. Ég spyr: Hvers vegna styrkir ríkið ökuskírteinaútgáfu? Af hverju borgum við sem tökum bílpróf ekki sjálf fyrir ökuskírteini okkar? Þjóðskrá Íslands fer einnig fram á hærri upphæð og á að fá 125 millj. kr. fjárheimild samkvæmt frumvarpi þessu vegna halla stofnunarinnar af útgáfu vegabréfa á þessu ári. Mér finnst það að sama skapi alveg dæmalaust að ríkið skuli bera kostnað af því að gefa út vegabréf.

Komið hefur fram í fréttum að aldrei hefur verið gefið jafnmikið út af vegabréfum og á þessu ári. Væru vegabréfin höfð dýrari og ríkissjóði ekki blandað inn í þetta með þessum hætti mundum við kannski passa betur upp á vegabréfin okkar og þyrftum því ekki eins mörg. Eftir því sem ég kemst næst er aukningin ekki bara vegna þess að vegabréfin gilda nú orðið í fimm ár í stað tíu heldur fær fólk oft vegabréf á þessu tímabili, það finnur ekki vegabréfið, týnir því o.s.frv. En um leið og um er að ræða einhver peningaleg verðmæti passar fólk betur upp á hlutina. Mér finnst það alveg óheyrileg upphæð að íslensk þjóð skuli þurfa að fá 125 millj. kr. í aukafjárveitingu í frumvarpinu. En það skýrist kannski við 3. umr. Í skýringum stendur að verið sé að skoða það að taka aftur upp tíu ára markið til að draga úr kostnaði.

Talandi um vegabréfin þá er það ekki einungis það að borgum fyrir vegabréfið vegna þess að það er passinn okkar heldur er það okkar dýrmætasti réttur að hafa ríkisfang og geta ferðast á löglegu vegabréfi þannig að það eitt að hækka jafnvel að einhverju leyti til að koma til móts við útstreymið úr ríkissjóði leiðir það líka af sér að fólk fer kannski að líta á vegabréfið sitt sem dýrmæti sem beri að passa upp á og geyma á öruggum stað allan ársins hring. Við vitum að nú eru vegabréf farin að ganga kaupum og sölum í Austur-Evrópu og fólk er farið að misnota mjög þann rétt, þannig að ég komi því að í ræðu minni.

Ég var búin að tala um þá misfærslu á fjármunum sem koma frá Evrópusambandinu og þarf ekki að fara meira yfir það. En mér finnst athyglisvert að bæði hjá fjármálaráðuneytinu og hjá Fjársýslu ríkisins er bætt við tæpum 3 millj. kr. samkvæmt fjáraukalögunum. Til hvers? Til þess að stofna sérfræðiteymi til að aðstoða við launagreiningu og innleiðingu jafnlaunastaðalsins. Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu um árlega fjárveitingu til ráðningar tveggja sérfræðinga til að annast umrædd verkefni. Það fellur undir hina svokölluðu jafnréttisstefnu. Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir er búin að vera í ríkisstjórn í fimm ár og hefur haft jafnréttismál á sinni könnu. Hún hefur barist fyrir þeim málum í bráðum 35 ár eða sem nemur þingsetu hennar, en það hreyfist ekki neitt í jafnréttismálum. Enn þá er launamunur kynjanna fyrir hendi. Hæstv. forsætisráðherra lét hafa eftir sér í fréttum um daginn að það væri algerlega óþolandi ástand. Hún hefði frekar átt að spyrja sjálfa sig að því þar sem hún hefur verið í forsvari fyrir ríkisstjórn í bráðum fjögur ár: Hvað er að? Hvers vegna er ekki búið að kippa því í liðinn hjá opinberum starfsmönnum?

Hvað er að? segi ég nú bara. Nei, nei, í staðinn er sett fjármagn inn á fjáraukalög til að setja málið í nefnd, stofna sérfræðihóp — tvö sérstöðuígildi þar. Ríkisstjórnin kann svo sannarlega að fjölga opinberum störfum þótt hún sé máttlaus á almenna vinnumarkaðinum varðandi atvinnusköpun þar.

En svona þenst báknið út og þess vegna er mjög athyglisvert að fara yfir í umhverfisráðuneytið því að ég hef verið mjög gagnrýnin á að tæpast er samþykkt frumvarp sem snýr að umhverfismálum, enda eru nánast öll málefni í umhverfisráðuneytinu byggð á reglugerðum Evrópusambandsins. Ég hef sagt í ræðu að það kemur varla frumvarp inn í þingið nema ákvæði sé um að fjölga ríkisstarfsmönnum, því að oftast segir í lokagreinum frumvarpanna að stofna þurfi ný störf og að þetta og hitt verkefni þurfi tvo starfsmenn eða þrjá starfsmenn. En hvað aðalskrifstofu umhverfisráðuneytisins varðar kemur fram að umhverfisráðuneytið fer fram á 10 millj. kr. aukafjárveitingu vegna nýrra verkefna ráðuneytisins í ljósi breytinga á ráðuneytinu. Það tengist breytingum ríkisstjórnarinnar á Stjórnarráði Íslands á sínum tíma. Þá var sagt að um endanlegar upphæðir væri að ræða, það væri svo mikill sparnaður fólginn í því o.s.frv., en svo fer Umhverfisstofnun fram á 9 millj. kr. fjárframlag á aukafjárlögum. Það sannar þar með það sem ég sagði þegar við ræddum frumvarp um loftslagsmál, að þarna er farið fram á að fjölga um tvö stöðugildi með starfstengdum kostnaði, hvorki meira né minna, vegna þess að nú eru þau lög komin í gildi sem halda utan um losunarkerfi. Ríkisstjórnin gaf að vísu frá sér íslenska ákvæðið á sínum tíma. En nú er þetta orðið svo mikið apparat eftir að við tókum upp þetta kerfi að þar þarf tvo starfsmenn til að stunda upplýsingalöggjöf og leiðbeiningar við úthlutun losunarheimilda, rekstur skráningarkerfisins og almenna umsýslu.

Virðulegi forseti. Er ekki einstaklega kratalegt að lesa þennan texta? Það er svona sem kerfið þenst út innan frá án þess að nokkur fái rönd við reist. Ef aukningin kemur ekki fram í fjárlögum kemur hún bara fram í fjáraukalögum. Þess vegna er aldrei marktækt að lesa bara fjárlög hvers árs. Það þarf að leggja saman fjárlög og fjáraukalög til að reikna út hvað ríkisstjórnin sóar raunverulega miklum peningum og forgangsraðar á vitlausan máta. Hér kallað eftir því að brýnum verkefnum verði forgangsraðað en ekki gæluverkefnum.