141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:07]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt ábending hjá hv. þm. Pétri Blöndal. Svona útspil á kosningavetri er ekkert annað en kosningabarátta. Í þessu tilviki er sérstaklega um að ræða kosningabaráttu í Suðvesturkjördæminu þar sem hv. fjármála- og efnahagsráðherra heyr sína kosningabaráttu. Hún er líka kosningabarátta ríkisstjórnarinnar. Þetta er allt mjög ótrúverðugt. Hér er kynnt tillaga um einhvers konar fjárfestingarleið sem hefur útgjöld í för með sér, ekki bara á þessu kjörtímabili heldur til nokkurra ára. Það kallar auðvitað á útgjöld næstu ár og um þau á eftir að taka ákvörðun. Það verður ekki þessi ríkisstjórn sem gerir það. Það verður ekki þessi ríkisstjórn sem tekur ákvörðun um útgjöld til þessara mála á næsta kjörtímabili.