141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

opinberir háskólar.

319. mál
[16:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Við þekkjum auðvitað bæði tvö vel fjárhagsvandamál skólanna vegna þess að þeir hafa ekki fengið þau framlög sem þeir hefðu svo sem átt að fá til að standa undir þeim skuldbindingum sem á þá eru settar.

Ég held að málið sé ekkert flókið að því leyti til að komi ekki til aukið fjármagn — við vorum bara síðast í gær, hv. þingmenn Norðvesturkjördæmis, að funda með fulltrúum frá Hólaskóla þar sem í stefnir að setja verði að lágmarki 60 millj. kr. til þess að halda bara dampi eða standa undir þeim rekstri sem nú þegar er. Það er því auðvitað mikilvægt að það komi skýrt fram inn í fjárlögin fyrir 2013 gagnvart því sem hér er lagt til. Síðan þekkjum við líka Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, það er mikilvægt að umhverfið sé með þeim hætti að skólarnir verði skornir niður úr snörunni í staðinn fyrir að lengja alltaf í henni.

Síðan langar mig líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort breyting á þessum lögum einum og sér, burt séð frá því sem er í fortíðinni, kalli á aukin útgjöld — eins og ég skil umræðuna frá fjármálaráðuneytinu kallar það á aukin útgjöld — og hvort þau verði þá ekki örugglega inni í fjárlögum 2013 af því að breytingin tekur gildi á miðju árinu.

Eins langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í samstarfsnetið. Nú kom það fram í fjárlögunum fyrir árið 2013 að lagt er til að það verði framlengt aftur um tvö ár, sem eru þá 300 milljónir næstu tvö ár og er þá komið í fjögur ár, sem eru 600 milljónir. Síðan er gert ráð fyrir að það kosti 50 milljónir árlega eftir árið 2014. Er hæstv. ráðherra alveg sannfærð um að þetta sé að skila því sem til var ætlast?