141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

opinberir háskólar.

319. mál
[16:12]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið, það var skýrt. Það var sem ég ætlaði að þarna væri í raun og veru kominn í það minnsta vettvangur sem hægt væri að þróa í þá átt ef vilji er til þess. Mér finnst nokkuð áhugaverð lýsing hæstv. ráðherra á Háskóla Íslands, þ.e. að líta svo á sem ég held að margir geri, að þar sé um að ræða ákveðinn fjölda sérskóla eða sjálfstæðra skóla sem síðan starfi undir einni regnhlíf Háskóla Íslands.

Þá mun reynslan af þessu skipta miklu máli og síðan hvernig þetta verður útfært þegar kemur að sjálfstæði slíkra skóla og hvað varðar stöðu háskólaráðanna. Ég velti sérstaklega upp fyrstu skrefunum í þessu af því að talað er um gæðamálin og samþættingu þeirra og samræmingu að það getur auðvitað haft heilmikið að segja um til dæmis framsetningu eða námsframboð, samsetningu námsins, valmöguleika o.s.frv. sem hefur síðan úrslitaáhrif á gæði þess náms sem í boði er. Og þá enn og aftur, ef við einskorðum okkur við þann tíma sem við erum að horfa á, þennan upphafstíma, eins og lagt er upp með í frumvarpinu, mundi ég kannski vilja heyra aðeins nánar frá ráðherranum um hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér að reglugerðin geti litið út — ég átta mig á að það er þá ekki nema í einhverjum mjög breiðum strokum sem sú mynd verði dregin. En ég hef áhuga á að glöggva mig aðeins nánar nákvæmlega á þeim þætti hversu langt samstarfsnetið getur teygt sig inn í starfsemi þessara skóla miðað við þær forsendur sem eru gefnar í upphafi og þá er ég meðal annars að tala um gæðamálin. Það hugtak hefur að gera með námsframboð, samsetningu þess o.s.frv. sem er á valdi eða (Forseti hringir.) í umsjón háskólaráðanna eins og maður hugsar það.