141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

gengistryggð lán og verðtryggð lán.

[13:42]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa söguskýringu ráðherrans. Skilaboðin eru einföld: Það stendur ekki til að gera neitt frekar. Það er það sem ráðherrann er að segja. Hann getur óskað eftir því að ég taki málið upp við annan þingmann en ráðherrann er yfirmaður fjármálamarkaðarins og það var ágætt að fá þetta yfirlit yfir það sem þegar hefur verið gert. Staðreynd málsins er hins vegar sú að frá hruni hafa aldrei fleiri verið í vanskilum við Íbúðalánasjóð en einmitt í dag. 50 nýir skjólstæðingar leita til umboðsmanns skuldara í hverri viku og upplýsingar frá Creditinfo sem voru til umfjöllunar í fjölmiðlum fyrir skemmstu sýna að staðan er að versna og heimilin taka yfirdráttarlán í auknum mæli. Allt eru þetta vísbendingar um að þær aðgerðir sem ráðherrann fór ágætlega yfir og útlistaði einu sinni enn fyrir þingheimi hafa ekki dugað til. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur áttað sig á því og segir að þessi heimili séu að sligast en ráðherrann kemur hingað upp og segir: Það stendur ekki til að gera neitt í því. Það er þá svar ríkisstjórnarinnar.