141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

gengistryggð lán og verðtryggð lán.

[13:43]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það hefði verið meiri reisn yfir því að við ræddum þetta grafalvarlega og erfiða mál á uppbyggilegan og málefnalegan hátt en ekki með útúrsnúningi af því tagi sem hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er hér með. Ég var einmitt að fara yfir það að við áformum áfram í fjárlögum næsta árs mjög mikinn stuðning við þessar skuldugustu fjölskyldur. Við breytum þar útfærslunni núna, m.a. á grundvelli þess að greiningar hafa sýnt að þeir sem eru í mestum erfiðleikum eru ungar barnafjölskyldur með þungar skyldur og þar af leiðandi erum við að auka umtalsvert stuðninginn við þær fjölskyldur með 2,5 milljörðum í viðbót inn í barnabótakerfið. Greiningar Seðlabankans, háskólans og fleiri aðila hafa sýnt að þær eiga að breyttu breytanda erfiðast með að ráða við þessa byrði. Þær eru yngstar, þær eru með nýjustu og hæstu lánin og þær eru með börn sem verið er að ala upp þannig að við beinum stuðningnum sem er umtalsverður, á þriðja tug milljarða í vaxtabætur og barnabætur, (Forseti hringir.) til þeirra hópa sem greiningar hafa sýnt að eiga erfiðast með að ráða við þetta. Það er ekki hægt að snúa þannig út úr máli manns að það eigi ekki að gera neitt. Það er ómaklegt.