141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

greiðslur til skiptastjórna.

[13:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Reglulega, svona einu sinni á ári, koma upp umræður um háar greiðslur til slitastjórna. Hæstv. ráðherra kallaði þessar greiðslur „dæmalaust háar“ í febrúar 2010 og sagðist ætla að beita sér fyrir því að þetta yrði leiðrétt og ekki yrði um slík ofurlaun að ræða sem ekki væru í samræmi við neina launaþróun á landinu.

Ég bað um fund vegna þessa í hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir tveimur mánuðum, að ég held, og þá var upplýst að ekkert hefur komið frá ríkisstjórninni eða Seðlabankanum vegna þessa máls. Frá haustinu 2008 hefur tímakaup hjá slitastjórnum hækkað úr 16 þús. kr. í 35 þús. kr.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hefur verið með mjög stórar yfirlýsingar um að hann ætli að beita sér fyrir því að lækka launin og hefur augljóst tæki til þess. Hundruð milljóna, rúmlega hálfur milljarður kr., ef marka má yfirlýsingar stjórnarliða, hefur verið veittur í Fjármálaeftirlitið til að hafa eftirlit með slitastjórnunum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju hefur hann ekkert gert í þessu máli, úr því að hann hefur verið með þessar stóryrtu yfirlýsingar?

Ég spyr einnig af hverju ekki sé upplýst um laun fleiri slitastjórna en þess eina banka sem verið hefur í fréttunum þrátt fyrir að margoft hafi verið beðið um það.

Að endingu má líka spyrja: Af hverju — þrátt fyrir að fjármunirnir og lagaheimildirnar séu hjá FME sem heyrir undir hæstv. ráðherra — er ekki verið að fylgjast með því hvernig slitastjórnirnar semja við sjálfar sig og skylda aðila?