141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

greiðslur til skiptastjórna.

[13:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er svolítið annar tónn hér hjá hæstv. ráðherra sem lýsti því yfir að þetta væru dæmalaust háir reikningar, vissi auðvitað stöðuna sem þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, og sagðist ætla að beita sér í málinu. Hæstv. ráðherra nefnir að slitastjórnir séu á ábyrgð kröfuhafa. Hæstv. ráðherra hefur aðgang að og er með umboð sem kröfuhafi fyrir hönd íslenska ríkisins og Seðlabankinn er svo sannarlega kröfuhafi. Það hefur verið upplýst í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að ekki hafi komið fram neinar óskir frá hæstv. ríkisstjórn, hvorki í gegnum Seðlabankann né annað, um að hafa eftirlit eða gera athugasemdir við þessar launagreiðslur.

Í ofanálag eru þetta leyfisskyldir aðilar og hafa verið alveg fram á síðustu mánuði þannig að hafa á eftirlit með þeim alveg eins og bankaráðsmönnum og öðrum slíkum. Ef bankaráðsmaður er til dæmis í samningum við sín eigin fyrirtæki (Forseti hringir.) á Fjármálaeftirlitið að hafa eftirlit með því. (Forseti hringir.) En niðurstaðan er þessi: Hæstv. ráðherra er hér með stórar yfirlýsingar og gerir síðan nákvæmlega ekkert með þetta. (Forseti hringir.) Og nú þurfa menn að gæta sanngirni í umræðunni. Þá er hann væntanlega að tala við sjálfan sig, hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) hann er að tala við hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon sem talaði með þessum hætti í febrúar 2010.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk.)