141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

breytingar á byggingarreglugerð.

[13:59]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í upphafi þessa árs staðfesti ráðherra umhverfis- og auðlindamála nýja byggingarreglugerð sem á samkvæmt bráðabirgðaákvæði að taka gildi núna í ársbyrjun 2013. Það er margt metnaðarfullt í þeirri byggingarreglugerð og er þar sett inn ýmislegt af því sem besta frá nágrannalöndum. Þar er ákvæði um auknar kröfur um aðgengi; lyftur, stærri bílastæði, upphitun útiflata, rafmagnsopnun úti- og millihurða, stækkun sameignarsvæða, kröfur um aukna einangrun í loftum og frágang á botnplötum. Þannig mætti lengi telja.

Ljóst er að hinum nýju reglum fylgir aukinn kostnaður. Samtök iðnaðarins hafa gert athugasemdir varðandi áhrif þeirra á byggingarkostnað, Samband íslenskra sveitarfélaga hefur einnig gert athugasemdir og var nýlega skýrt frá niðurstöðu Byggingafélags námsmanna sem áætlar að hækkun á leigu- og húsnæðisverði geti orðið allt að 15–20%. Þar að auki er undirbúningsferli málsins ekki lokið. Áætlað er að gefa þurfi út um 120 leiðbeiningarblöð og er búið að birta um 50 þeirra.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra, með vísan til þess sem á undan er sagt: Hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið eða stofnanir á þess vegum látið kostnaðarmeta áhrif þessarar nýju reglugerðar á íbúðaverð? Hvert er álit ráðherra á þeim tölum sem birtar hafa verið frá byggingaraðilum um hækkun íbúða- og leiguverðs? Telur ráðherra heppilegt þegar litið er til stöðunnar á byggingarmarkaði, sem er ekki kominn almennilega í gang eftir hrun, og þess ástands sem er á húsnæðismarkaði þar sem leiguverð og íbúðaverð er að komast í fyrra horf, að fara fram með reglugerðarbreytingar við þessar aðstæður? Hefur komið til skoðunar að fresta gildistöku reglugerðarinnar að hluta eða öllu leyti? Telur ráðherra ástæðu til þess í ljósi aðstæðna að taka upp þessi nýmæli í áföngum líkt og gert var í Danmörku þar sem innleiðingar- og aðlögunartími var sex ár?