141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

breytingar á byggingarreglugerð.

[14:01]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem fram kom í máli hans að hér er um nokkuð metnaðarfullar breytingar að ræða. Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um í sambandi við Samtök iðnaðarins og aðra þá aðila sem fullyrt hafa að um verulegan kostnaðarauka verði að ræða hef ég hvergi séð þá útreikninga. Ég held að menn eigi að fara varlega í að fullyrða um prósentutölur í þeim efnum. Samkvæmt sérfræðingum mínum er nánast útilokað að leggja mat á kostnaðinn sem af þessu kann að hljótast.

Í grundvallaratriðum er um að ræða breytingu sem hlýtur að vera afar mikilvæg fyrir ríkisstjórn sem kennir sig við jafnaðarmennsku, að samfélagið í heild sé aðgengilegra fyrir fatlað fólk. Öryrkjabandalagið og Sjálfsbjörg hafa lagt mjög mikla áherslu á þessa þætti. Raunar bætti þingið sjálft í að því er varðar mannvirkjalög á sínum tíma og kröfur til aðgengis í mannvirkjafrumvarpinu þegar það var til meðferðar hjá þinginu þannig að þingið lagði mjög mikla áherslu á aðgengisþáttinn. Við erum núna á aðlögunarári, ef svo má að orði komast. Reglugerðin tók gildi um síðustu áramót en í raun hafa allir aðilar máls yfirstandandi ár til að aðlagast því. Það flækir náttúrlega stjórnsýslu málaflokksins og getur valdið lagalegri óvissu að hafa það yfirgangstímabil mjög langt. Svo má líka velta fyrir sér hvort samkeppnisstaða þeirra skekkist þá, sem ákváðu frá upphafi að fylgja ákvæðum reglugerðarinnar og aðlaga sig þeim strax, gagnvart þeim sem frestuðu aðlöguninni fram á síðustu stundu.

Iðnaðurinn verður að aðlaga sig nýjum kröfum, það er óumflýjanlegt, og má velta því fyrir sér hvort ekki sé eins gott að það sé gert strax. Mannvirkjastofnun telur (Forseti hringir.) að ótti við kostnaðarauka sé í mörgum tilvikum byggður á misskilningi og hugsanlega rangri túlkun.