141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

reglur um lausagöngu búfjár.

[14:10]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skuli stíga fram og lýsa því yfir að við munum ekki eiga von á því fyrir komandi kosningar að frumvarp komi frá ríkisstjórninni með sambærilegum hugmyndum og hæstv. umhverfisráðherra lýsti í grein sinni. Það er alveg rétt að hvorki hún né formaðurinn hafa rætt um algera vörsluskyldu. En ég benti á að undanþágur frá þessum hugmyndum eru algerlega óútfærðar, það er rétt sem hæstv. ráðherra segir. Það blandast engum hugur um, og bændur skilja það best af öllum, að efla þarf landvernd og sjálfbærni í búfjárbeit. Bændur hafa barist fyrir því og verið þar fremstir í flokki enda eiga þeir aðild að nefnd sem sett hefur verið á fót í þeim efnum.

Mér þætti ágætt að fá það staðfest án þess að menn séu með loðnar yfirlýsingar um hvað muni gerast vegna þess að þetta er (Forseti hringir.) stórt og mikið mál fyrir bændur í landinu, sérstaklega þá sem stuðla vilja að eflingu byggðar víðs vegar um landið.