141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

staða þjóðkirkjunnar og safnaða landsins í ljósi niðurskurðar undanfarinna ára.

[14:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu málefni. Fyrstu tvær spurningarnar sem hann beinir til mín eru annars vegar hvernig ég sjái þróunina í samskiptum ríkis og kirkju á næstu árum og hins vegar hvort fyrirhugaðar séu breytingar á lagaumhverfi þjóðkirkjunnar og þá hverjar. Þessar tvær spurningar eiga það sammerkt að snúa að lögum sem um kirkjuna gilda. Seinni tvær spurningarnar snúast um fjárhagsleg málefni.

Því er til að svara varðandi lögin að við lítum svo á — ég held ég tali þar fyrir hönd Alþingis almennt — að kirkjan sé sjálfstæð og sjálfráð um sín innri málefni. Það var grundvallarforsendan og skilningurinn í samkomulaginu sem gert var árið 1997 og hv. þingmaður vísaði til.

Kirkjuþing vinnur nú að tillögugerð hvað þetta snertir og þegar tillögur þess liggja fyrir verða þær teknar til umfjöllunar í innanríkisráðuneytinu. Kirkjuþing er þó fyrst og fremst milligönguaðili sem kemur tillögum á framfæri við Alþingi sem síðan sest yfir þær. Ég held að skilningur okkar allra, hvað lögin áhrærir, sé að kirkjan sé sjálfráð um sín innri málefni.

Síðan er það fjárhagsþátturinn sem hv. þingmaður víkur að í tveimur síðustu spurningunum. Annars vegar vísar hann í samkomulagið frá 1997, hvort fyrirhugaðar séu breytingar á því, og hins vegar nefnir hann áhyggjur innan kirkjunnar af fjárhagsstöðu sókna og spyr hvaða afleiðingar skerðingar undangenginna ára hafi fyrir safnaðarstarf.

Þjóðkirkjan fær sem kunnugt er framlög á fjárlögum til að standa straum af rekstri sínum en þau fjárframlög eru í höfuðdráttum af tvennum toga. Í fyrsta lagi framlag til Biskupsstofu til að greiða laun tiltekins fjölda kirkjunnar þjóna og starfsmanna Biskupsstofu. Þetta framlag er bundið í lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, sem sett voru árið 1997, en það er jafnframt samningsbundið og byggt á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi frá sama ári. Með því samkomulagi afsalaði þjóðkirkjan til ríkisins eignum og eru greiðslur ríkisins hugsaðar sem arður af þeim eignum. Framlögin hafa að þessu leyti þá sérstöðu að þau eru ekki hugsuð sem framlög af skatttekjum heldur sem arður af þessum eignum. Það er hugsunin að baki greiðslunum.

Í öðru lagi á framlag á fjárlögum að standa straum af rekstrarkostnaði sókna þjóðkirkjunnar og kirkjuhúsanna. Þetta framlag er bundið í lög um sóknargjöld o.fl., frá árinu 1987. Samkvæmt eldri lögum um sama efni önnuðust sóknirnar sjálfar álagningu og innheimtu sóknargjaldsins en með gildandi lögum var sóknargjaldið, með samþykki kirkjunnar, umreiknað yfir í tiltekið hlutfall tekjuskatts, innheimt með honum og skilað til sóknanna með mánaðarlegum greiðslum.

Því hefur verið haldið fram að með þeirri breytingu sé nú sá eðlismunur á að ríkið innheimti ekki lengur sóknargjöld og framlagið til sóknanna sé eins og hvert annað framlag úr ríkissjóði, fjármagnað með almennri skattheimtu. Að mínum dómi er þetta misskilningur. Sóknargjaldið var alltaf hugsað sem gjald þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni til hennar fyrir félagsaðild, enda segir beinlínis í lögum um sóknargjöld o.fl., að gjöld sem innheimt eru samkvæmt þeim séu sóknargjöld. Þetta er sá skilningur sem ég hef á þeim málum.

Eftir hrun efnahagskerfisins árið 2008 hafa bæði þessi framlög til þjóðkirkjunnar verið skert. Framlögin sem byggja á kirkjujarðasamkomulaginu hafa verið skert með samkomulagi við þjóðkirkjuna og hefur kirkjuþing árlega samþykkt slíka skerðingu, enda sé hún, með leyfi forseta: „til samræmis við almennan niðurskurð á flestum sviðum ríkisins“, eins og segir í árlegum viðaukasamningi sem gerður er um niðurskurðinn.

Kirkjan hefur aldrei andmælt því að hún lúti sömu skerðingum og aðrir aðilar í þjóðfélaginu. Hún hefur aldrei gert ágreining um það. Hún hefur hins vegar viljað láta hið sama ganga yfir sig og aðra. Það sem gerðist með sóknargjöldin var að þau voru skert en síðan ekki verðbætt. Það er nokkuð sem kom fram í skýrslu sem ég lét gera í fyrra, í henni var sýnt fram á að sóknargjöldin höfðu sætt meiri skerðingu en gerðist almennt um stofnanir hins opinbera.

Síðan vil ég vekja athygli á því að (Forseti hringir.) hér er vísað í samninga og ef gera á breytingar á samningum hlýtur það að verða gert með samkomulagi og aðkomu beggja aðila.