141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

staða þjóðkirkjunnar og safnaða landsins í ljósi niðurskurðar undanfarinna ára.

[14:23]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Mig langar að byrja á því að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því í ríkisstjórn að sóknargjöldin verði verðbætt, eins og ég tel að hefði átt að gera. Ég held að færa megi mjög sterk rök fyrir því að með tilliti til sóknargjalda hafi þjóðkirkjan þurft að hlíta meiri niðurskurði en sambærilegar stofnanir sem heyra undir ráðuneytið.

Ég vil nota þetta tækifæri og fagna því að meiri hluti þjóðarinnar vill hafa ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskránni vegna þess að á undanförnum árum hefur þjóðkirkjan því miður þurft að þola óvægna umræðu að mínu mati og oft og tíðum ósanngjarna. En hún hefur staðið þetta af sér og stendur keik og meiri hluti þjóðarinnar vill að hún haldi áfram að sinna sínu samfélagslega hlutverki, sálgæslu og félagsstarfi. Þar vinnur fjöldi sjálfboðaliða mjög óeigingjarnt og mikilvægt samfélagslegt starf að mínu mati.

Það er líka ágætt að rifja upp að árið 2007 eða 2008 voru hér uppi tillögur í tíð stjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um að afnema hið kristilega siðgæði út úr markmiðskafla grunnskólalaga. Sem betur fer tókst okkur framsóknarmönnum og mörgum öðrum að hrinda því að þær hugmyndir yrðu að veruleika, en þær eru því miður til marks um það hvaða umræðu þjóðkirkjan hefur þurft að þola að undanförnu. Hún á erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér, en þrautseigjan hefur skilað árangri að mínu mati.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. innanríkisráðherra: (Forseti hringir.) Mun hann beita sér fyrir því að þjóðkirkjan njóti sannmælis varðandi sóknargjöldin og hafi sömu stöðu og aðrar stofnanir sem heyra undir innanríkisráðuneytið?