141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

staða þjóðkirkjunnar og safnaða landsins í ljósi niðurskurðar undanfarinna ára.

[14:30]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það var vel til fundið hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að fara fram á þessa sérstöku umræðu. Hér er á ferðinni mikilvægt mál vegna þess að það starf sem er unnið innan vébanda þjóðkirkjunnar er bæði fjölbreytt, mikilvægt og snertir fjölda fólks. Það er ekki bara að starfið sé mikilvægt heldur snertir það líf þjóðarinnar í landinu oft og tíðum á mikilvægustu stundunum, þeim ánægjulegustu og þeim erfiðustu. Það skiptir máli að þjóðkirkjan hafi burði til þess að sinna sínu hlutverki.

Ég get því tekið undir með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni þegar hann varpar þeirri spurningu til hæstv. innanríkisráðherra hvort það standi til að bæta þjóðkirkjunni það sem augljóslega eru mistök, niðurskurðinn til kirkjunnar umfram þann niðurskurð sem gerður hefur verið á öðrum stofnunum í landinu. Það er mjög mikilvægt að fá á hreint að það sé vilji hæstv. ráðherra og að til standi að gera þetta.

Ég tek eftir því, virðulegi forseti, að í fjáraukalögum er ekki gert ráð fyrir slíkum útgjöldum. Það hefði verið tækifæri til þess. Ég vona að það myndist hér vilji til, og ég heyri ekki annað í umræðunni, að þegar fjárlög verða afgreidd verði þetta mál skoðað gaumgæfilega því að í fjölmörgum sóknum þessa lands er starfsemin komin undir brot og ekki hægt að sinna þeim verkefnum sem svo nauðsynlegt er að kirkjan sinni.