141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

staða þjóðkirkjunnar og safnaða landsins í ljósi niðurskurðar undanfarinna ára.

[14:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir þessa umræðu. Komið hafa fram mjög mikilvægar upplýsingar og ég vil vísa í það að þegar verið er að ræða um ákvæði þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá er í gildi stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland og þar er sagt að hér skuli vera þjóðkirkja. Öðru vinnum við ekki út frá nú þannig að allt tal um að breyta þjóðkirkjuákvæðinu gengur ekki upp. Við skulum halda okkur við staðreyndir og fara eftir stjórnarskrá sem er í gildi.

Hér er vísað til sérstaks samkomulags sem var gert milli ríkis og kirkju árið 1997 þar sem því ákvæði var komið inn að ríkið skyldi innheimta sóknargjöld. Við getum líkt því við virðisaukskattskerfið, það má segja að ríkið sé vörsluaðili fyrir sóknargjöld sem innheimt eru af kristnu fólki hér á landi. Það sem hefur hins vegar gerst undanfarin ár í þessum mikla niðurskurði er að ríkið sem vörsluaðili fyrir sóknargjöld hefur ekki skilað þeim til þjóðkirkjunnar. Það er alvarlegur hlutur, virðulegi forseti. Fróðir menn segja mér að sá hlutur sem ríkið heldur eftir af innheimtum sóknargjöldum sé tæpir 2 milljarðar. Það eru miklir fjármunir þegar á það er litið að ríkinu ber skylda til að skila þeim til þjóðkirkjunnar.

Samkvæmt lögum er bannað að innheimta skatt eða gjald af einstaklingum og nota það í aðra hluti. Þar með verð ég að vísa í það að sú ríkisstjórn sem nú starfar hefur farið sömu leið varðandi Ríkisútvarpið. Hún innheimtir nefskatt, skilar sumu af honum (Forseti hringir.) til Ríkisútvarpsins og notar restina í gæluverkefni. Ég gagnrýni þetta, virðulegi forseti, og hæstv. innanríkisráðherra verður að svara fyrir það hér.