141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:48]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er ljóst af því frumvarpi sem liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur farið á svig við þær aðgerðir sem hún tilkynnti varðandi áform sín um að styrkja umgjörð ríkisfjármála. Það sést best á því að fyrir liggur að um helmingi meiri halli er á fjárlögum síðasta árs eða ríkisreikningi en ráð var fyrir gert og sömuleiðis sjáum við það í því frumvarpi sem hér liggur fyrir að ekki er tiltekinn allur kostnaður. Ef við tökum til dæmis þau gjöld sem við vitum að eiga eftir að falla á ríkissjóð, eins og vegna Íbúðalánasjóðs upp á um það bil 14 milljarða, auk þess sem fyrir liggur að tekjur af eignasölu skila sér ekki inn má ætla að þegar upp er staðið verði halli ársins 2012 um 48 miljarðar kr. Því til viðbótar liggur fyrir að endurskoðuð þjóðhagsspá gefur ekki þær vonir eða væntingar sem til hennar voru bornar þegar fjárlög næsta árs voru borin fram. Að því sögðu segi ég tvímælalaust að þau fjáraukalög sem hér liggja fyrir standast ekki þær áætlanir sem (Forseti hringir.) nauðsynlegar eru um þann jöfnuð sem ná verður í ríkisfjármálum.

Þetta er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og við sitjum hjá við þessa afgreiðslu.