141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:49]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það fjáraukalagafrumvarp sem við göngum til atkvæðagreiðslu um í dag er ekki til vitnis um það að við höfum náð fullri stjórn á ríkisfjármálum landsins, en það vitnar um það að stjórn ríkisfjármála hefur sjaldan verið betri, áætlanagerð sjaldan betri og agi og eftirlit með fjármálum sjaldan betra en nú.

Síðustu árin fyrir hrun tók Alþingi ákvörðun um að fara 75 milljarða umfram fjárlög. Á síðustu þrem árunum fyrir hrun ríkti sá agi í ríkisfjármálum að farið var 75 milljarða fram úr fjárlögum á verðlagi þessa árs. Algengt var að hér væri farið 6–8% fram úr fjárlögum á hverju einasta ári. Við erum komin niður í 2% núna og farin að nálgast það sem gerist í öðrum löndum. Það er til merkis um að við erum á réttri leið og það er til merkis um að kominn er meiri agi og eftirlit af hálfu þingsins og fjárlaganefndar með meðferð ríkisfjármála. (Gripið fram í: … Ríkisendurskoðunar.)