141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

aukin áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á vettvangi Evrópusamstarfs.

62. mál
[15:31]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og við vitum flest — því miður ekki alveg öll — er umsókn Íslands að Evrópusambandinu komin í fullkomnar ógöngur. Við vitum að staðan er sú að enginn raunverulegur pólitískur vilji er fyrir umsókninni, það sjáum við á skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið meðal þjóðarinnar, það sjáum við á þeim yfirlýsingum sem liggja fyrir af hálfu stjórnmálaflokkanna á Alþingi og svardögum einstakra hv. þingmanna, m.a. úr stjórnarliðinu. Þá er algjörlega ljóst að enginn raunverulegur pólitískur þingmeirihluti er fyrir umsókninni að Evrópusambandinu. Engu að síður er málið keyrt mjög hart áfram og til þess ber brýn pólitísk nauðsyn innan ríkisstjórnarsamstarfsins sjálfs. Forsendan fyrir því að ríkisstjórnin hangir saman er sú að Vinstri grænir beygi sig í duftið fyrir Samfylkingunni og samþykki að halda áfram því ólánsferli sem umsóknin er og blasir við flestum mönnum.

Þetta er mjög sérkennilegt. Nú er þetta mál búið að standa svona í meira en þrjú ár. Kaflar hafa verið opnaðir og lokaðir, eins og það er kallað, á víxl og málum hefur undið þannig fram að menn hafa fjallað um ýmsa þýðingarlitla kafla sem meira og minna er búið að festa í íslensk lög á fyrri stigum og hafa þess vegna ekki mikla skírskotun í viðræðum um Evrópusambandið. Stóru málin bíða hins vegar handan við hornið. Þrátt fyrir að uppi hafi verið mikil fyrirheit um að byrja ætti á stóru og erfiðu málunum höfum við ekki séð glitta í þau að neinu ráði. Þau bíða. Ríkisstjórn Íslands kennir Evrópusambandinu um, Evrópusambandið segist ekkert vilja opna landbúnaðarkaflann og ekki sjávarútvegskaflann fyrr en einhvern tíma seint og um síðir. Það mun því ekkert reyna á stóru álitaefnin í þessum tveimur málaflokkum fyrr en einhvern tíma seinna og enginn veit hvenær verður.

Hæstv. ráðherrar sögðu okkur frá því að það væri gríðarlega mikilvægt að ljúka viðræðunum áður en kjörtímabilinu væri lokið. Nú vita auðvitað allir að það verður ekki. Það verður ekki farið að steyta á neinum ágreiningi í landbúnaðarmálum eða sjávarútvegsmálum fyrr en eftir kosningar og þá verður vonandi kominn sá pólitíski meiri hluti sem hefur burði og afl, þor og dug til að afturkalla umsóknina. Við höfum að vísu séð það upp á síðkastið að rætt hefur verið um í þingsölum og tekist á um 12. kafla sem lýtur að matvælalöggjöfinni og spurningunni um innflutning á lifandi dýrum. Hver er staðan þar? Jú, þau sjónarmið hafa komið fram að ekki komi til greina að heimila slíkan innflutning og þau sjónarmið eru í raun eðlileg vegna þess að við Íslendingar höfum ævinlega talað um að vegna sjúkdómahættunnar gagnvart búfjárstofnum sem hér hafa lifað um aldir í einangrun komi ekki til greina að heimila innflutning á lifandi dýrum.

En þá er búið til eitthvert flækjustig sem gengur út á að það verði að orða þetta með diplómatískum hætti svo að þeir miklu herrar og frúr úti í Brussel verði nú ekki typpilsinna og taki þessu illa. Þess vegna tipla menn í kringum þetta og reyna að halda því fram að við þurfum að orða þetta þannig að enginn móðgist úti í Evrópu við óbilgjarnar kröfur okkar um að halda okkur við það sem við höfum haldið okkur við áratugum saman, alveg frá því að við fengum sjálf að reyna hvað gerðist þegar flutt voru inn dýr sem ollu búfjársjúkdómum sem við erum ekki enn þá búin að bíta úr nálinni með.

Þarna sjáum við hvernig við erum strax komin í tiltekna erfiðleika og þeir lúta ekki að viðræðunum sjálfum heldur undirbúningi viðræðnanna. Erfiðleikarnir eru hér heima fyrir vegna þess að menn vilja greinilega ganga mishart fram í kröfugerðinni gagnvart Evrópusambandinu þegar ræða á spurninguna um hvort heimila eigi innflutning á lifandi dýrum. Við erum á vissan hátt farin að reyna að semja við okkur sjálf í þessu efni í stað þess að standa keik og setja ákveðið fram þau sjónarmið okkar sem alltaf hafa legið til grundvallar þessari spurningu. Þetta lofar ekki góðu um framhaldið.

Einhvern tíma verður þessu máli væntanlega ýtt út úr utanríkismálanefnd og það fer inn í viðræðuferlið við Evrópusambandið og síðan þurfum við að takast á við miklu stærri mál, þó að þetta sé nægilega stórt eitt út af fyrir sig, þegar við skoðum þau öll saman í heild og sameiginlega. Þá vaknar sú spurning hvort menn muni standa í lappirnar í viðræðunum.

Með öðrum orðum, virðulegi forseti, þetta er komið út í tóma vitleysu. Við erum á algjörum villigötum með málið eins og það leggur sig. Það hefur ekkert pólitískt lögmæti í raun og veru þrátt fyrir samþykkt Alþingis frá sumrinu 2009 vegna þess að menn hafa spilað svo rassinn úr buxunum í þessum efnum að það er að verða hálfgert vandræðamál og aðhlátursefni. Við sjáum það bara í umræðunni að enginn lætur sér detta það í hug lengur að Ísland sé á leiðinni í Evrópusambandið þó að menn togi í alla spotta í þá átt. Það blasir við hverjum manni, og vegna ástandsins í Evrópu, vegna stöðunnar á Íslandi, vegna hinnar pólitísku stöðu málsins, vegna skorts á stuðningi við málið hjá þjóðinni og í þinginu er fólk farið að ganga út frá því sem gefnu að Ísland muni hvort eð er ekkert ganga í Evrópusambandið og Evrópusambandsumsóknin sé bara einhver óværa sem kosti okkur ofan í kaupið fullt af peningum.

Því hefur verið stillt upp þannig að kostirnir séu bara tveir; einhvers konar pólitísk einangrun eða aðild að Evrópusambandinu. En það er ekki þannig. Í mars 2007 skilaði nefnd sem skipuð var á þeim tíma fulltrúum allra þingflokka undir forustu Björns Bjarnasonar, þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, mjög viðamikilli skýrslu um tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Í þeirri nefnd sátu fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Samfylkingarinnar, þar á meðal núverandi hæstv. utanríkisráðherra, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, þar á meðal núverandi hæstv. menntamálaráðherra og varaformaður VG, og sá sem hér stendur sat raunar í þessari nefnd líka. Við fjölluðum um það hvernig væri hægt að auka áhrif Íslands í Evrópusamstarfinu á grundvelli þess fyrirkomulags sem er núna með EES-samningnum.

Okkar megintillaga var sú að Ísland ætti að leggja áherslu á aukna þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi með það að markmiði að auka áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á þessum vettvangi, eins og segir raunar í niðurstöðum nefndarinnar.

Ég vil í þessu sambandi nefna sjö tillögur nefndarinnar um hvernig mætti ná þessu fram, með leyfi virðulegs forseta:

„1. Með því að auka tengsl stjórnmálamanna Íslands og ríkja ESB. Gilti það jafnt um samstarf á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis.

2. Nýttur yrði réttur sem Ísland hefði til þess að auka aðkomu embættismanna að undirbúningi mála á vegum Evrópusambandsins.

3. Lögð yrði áhersla á að rækja samstarf EFTA-ríkjanna við framkvæmd EES-samningsins.

4. Aukin yrði upplýsingagjöf um málefni sem snerti samstarf okkar við ESB og starf okkar á vettvangi EFTA. Sérstaklega verði tryggt að almenningur hafi tækifæri til að kynna sér þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi.

5. Samstarf sem hefur þróast á milli ýmissa hagsmunasamtaka á Evrópuvettvangi verði eflt.

6. Fagnað er aukinni kennslu í háskólum landsins á sviði Evrópufræða og taldi nefndin hana nauðsynlega til að efla þekkingu á þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi. Námsmönnum yrðu gefin tækifæri til starfsnáms, þátttöku í fundum í Brussel og greiningar á einstökum viðfangsefnum á vettvangi Evrópusamstarfsins.

7. Hvatt var til virkrar þátttöku í Schengen-samstarfinu.“

Síðan má segja að kjarni þessara tillagna felist almennt í niðurstöðukafla skýrslunnar, en þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Nefndin er sammála um að æskilegt sé að samskipti Íslands við Evrópusambandið verði aukin á ýmsum sviðum og er víða að finna ábendingar þess efnis í skýrslu nefndarinnar. Þar má nefna að Íslendingar taka þegar virkan þátt í tæplega 200 nefndum og sérfræðingahópum framkvæmdastjórnar ESB en full ástæða er til að efla þá þátttöku og nýta með því enn frekar þau tækifæri sem gefast til að hafa áhrif á stefnumótun sambandsins í þessum efnum. Þá telur nefndin miklu skipta að fylgjast náið með því, hvernig samstarf Evrópusambandsríkjanna þróast á sviði utanríkis- og öryggismála.

Í stuttu máli telur nefndin nauðsynlegt að Ísland leggi áherslu á aukna þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdu Evrópusamstarfi, með það að markmiði að auka áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á þessum vettvangi.“

Þetta er mjög skýrt. Það sem við bendum á með þessum tillögum okkar frá vordögum 2007, sem allir stjórnmálaflokkar stóðu að, þar með Samfylkingin, þar með Vinstri grænir, er einfaldlega sú ómótmælanlega staðreynd að á grundvelli EES-samningsins höfum við mikla möguleika á aðkomu sem leiðir til áhrifa á stefnumótun Evrópusambandsins og hvernig einstökum málum þar vindur fram.

Viljum við hins vegar auka þessi áhrif okkar getum við gert það annars vegar á vettvangi framkvæmdarvaldsins með virkri þátttöku embættismanna á þeim sviðum sem varða okkur sérstaklega og hins vegar með auknu pólitísku samstarfi sem hægt er að gera á vettvangi EES-samningsins. Þetta er sá valkostur sem við höfum og er fullkomlega boðlegur og nægjanlegur til að gæta hagsmuna okkar. Reynslan hefur í sjálfu sér sýnt okkur það fram að þessu en við vitum líka að við getum gert miklu betur. Það er ekki vansalaust að Alþingi skuli ekki hafa möguleika á því að sinna þessu hlutverki sínu betur en það hefur getað gert. Að vísu hafa verið gerðar ýmsar breytingar á starfsháttum Alþingis, og er verið að vinna að þeim einmitt núna þessi dægrin, vikurnar og mánuðina, sem eiga að geta aukið möguleika Alþingis á eftirliti með þeim málum sem koma hingað inn á færibandi og eru kölluð EES-mál. Það er allt saman mjög til bóta.

Ég vek líka athygli á í þessu sambandi að einu og hálfu ári eða svo eftir að skýrslan sem ég hef gert hér að umtalsefni birtist skilaði utanríkismálanefnd Alþingis líka skýrslu um þinglega meðferð EES-mála, allt í þeim dúr að reyna að styrkja aðkomu Íslands að ákvörðunum á þessu sviði. Þetta er allt saman, virðulegi forseti, til marks um að við getum stóraukið áhrif okkar á vettvangi Evrópusamstarfsins án þess að ganga í Evrópusambandið sjálft. Það er sá valkostur sem við Íslendingar eigum auðvitað að tefla fram núna í ljósi þess að það er enginn raunverulegur pólitískur vilji til að ganga í Evrópusambandið.

Ég ætla að fullyrða að ef tillaga um Evrópusambandsaðild yrði borin upp núna og menn væru ekki járnaðir á fótum og höndum eins og var með einstaka þingmenn stjórnarliðsins og hefur verið upplýst að gert var sumarið 2009, ef menn væru einfaldlega frjálsir sannfæringar sinnar og gætu greitt atkvæði í samræmi við það, gæti ómögulega verið pólitískur meiri hluti á Alþingi fyrir Evrópusambandsaðild, m.a. í ljósi þess að annar stjórnarflokkanna er með mikla svardaga í stefnuyfirlýsingum sínum, á flokksþingum sínum, á landsfundum og í ljósi yfirlýsinga úr munni einstakra þingmanna um að þeir séu á móti Evrópusambandsaðild en vilji úr því sem komið er drattast með Samfylkingunni í þessum leiðangri.

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta. Það er auðvitað hörmulegt að við séum komin í þá stöðu sem við erum í dag. Við erum búin að vera að bolloka með þetta mál frá miðju ári 2009 í þessum dýra farvegi Evrópusambandsaðildarumsóknarinnar þegar við gætum í raun náð því sem við þyrftum með öðru samstarfi, annars konar samstarfi milli okkar og Evrópusambandsins þar sem við gætum aukið áhrif okkar án þess að afsala okkur hluta af fullveldinu og án þess að setja í hættu starfsemi grundvallaratvinnuvega eins og sjávarútvegsins og landbúnaðarins.