141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

18. mál
[16:14]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég flyt hér frumvarp um breytingu á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, með síðari breytingum. Það ætti kannski fremur að heita frumvarp um siðbót á Alþingi.

Í frumvarpinu felst að öll kjör þeirra sem hér starfa verði ákveðin í kjararáði en ekki bara sum. Sum kjör á þinginu eru ákveðin í lögum sem alþingismenn samþykkja, undirbúin í sérstökum nefndum sem alþingismenn stofna, ekkert rædd, gerð með almennu samkomulagi skulum við kalla það eða samráði. Kannski væri þó réttast að kalla það samtryggingu. Þetta er að mínu viti blettur á heiðri Alþingis og má heiðurinn ekki við því eftir það sem á hefur dunið síðustu missiri. Ég tel að það muni standa til siðbótar á þinginu ef bletturinn verður máður burtu og öll kjör þingmanna annaðhvort sett í hendurnar á því ráði sem hér um ræðir eða þá alþingismenn ákveði þetta allt sjálfir, beri fulla ábyrgð á því gagnvart þjóðinni eins og tíðkaðist áður.

Sú hvorki/né-skipan sem nú er uppi þýðir í raun og veru að haldið er uppi blekkingum gagnvart almenningi, gagnvart kjósendum, þeim blekkingum að alþingismenn beri enga ábyrgð á kjörum sínum, þeim séu skömmtuð kjörin af ákveðnum dómstól eða úrskurðarnefnd, en staðreyndin er sú að alþingismönnum hefur tekist að bæta laun sín verulega með sérstökum álagsgreiðslum sem nýlega voru auknar þannig að það er ekki nema lítill hluti alþingismanna sem fær þau laun greidd sem á vef Alþingis og í opinberum upplýsingum eru talin fram sem hin raunverulegu laun alþingismanna. Aðrir eru með álagsgreiðslur, sumir með 5% álag, aðrir með 10%, hinir þriðju með 15%. Til eru þeir sem eru með 30% álag, a.m.k. einn alþingismaður, fyrir það að gegna hér tilteknum embættum og störfum.

Nú er ljóst að í störfum ýmissa á þinginu felst álag, t.d. þeim að vera formaður nefndar eða þingflokks. Þau eru líka tímafrek en á hinn bóginn er miklu betra, skynsamlegra og siðlegra að kjararáð ákveði hvort greiða skuli fyrir þau sérstaklega og þá fyrir hvaða önnur störf skuli greiða sérstaklega en að þessir menn sjálfir, vegna þess að þetta eru meira og minna þeir sjálfir, ákveði að greiða sér þetta álag fyrir tiltekin störf en ekki önnur.

Þingmennskan er afar fjölbreytt starf. Sumir eru formenn þingflokka og það er álag, eins og ég segi. Það er veglegt verkefni sem menn sækjast eftir að taka að sér. Aðrir eru formenn nefnda. Ég hef verið formaður nefndar og veit að það er álag og það tekur töluverðan tíma ef því á að sinna vel, en ég sóttist eftir því að vera formaður nefndarinnar. Ég taldi það ábyrgðarhlutverk og taldi í því felast ákveðin áhrif sem ég sóttist eftir fyrir mína hönd og þeirra sem kusu mig á þing. Ég sóttist ekki eftir því til þess að fá fyrir það aukið fé, enda þáði ég ekki það fé. Ég held að við eigum að hafa þetta þannig að menn á þinginu sækist eftir tilteknum störfum af þessu tagi vegna þess að þau séu þeim vegsauki og auki áhrif þeirra en ekki vegna þess að þar með fái þeir fyrir það aukalegar greiðslur.

Til eru þeir sem ekki sækjast sérstaklega eftir formennsku í nefnd eða þingflokki eða öðrum þeim störfum, t.d. að vera varaforsetar Alþingis, sem gefa stubba í greiðslur. Þessir menn sinna störfum sínum á Alþingi Íslendinga ekki verr en hinir. Þeir hafa aðstöðu til að vera í betra sambandi við kjósendur, ef þeim sýnist svo, til að kynna sér málin af meiri krafti og þrótti og sinna þeim margvíslegu störfum sem alþingismanni ber að sinna og kemst yfirleitt ekki yfir. Þeirra störf eru hins vegar ekki metin þannig að þeir þurfi sérstakt álag vegna þess að álagsfólkið hefur ákveðið að það séu aðeins sum störf sem þannig eru metin og önnur ekki.

Ég hef ásamt hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur flutt frumvarp af þessu tagi tvisvar áður. Í fyrsta frumvarpi okkar Valgerðar Bjarnadóttur fólst að þessar álagsgreiðslur yrðu afnumdar. Í síðari gerð frumvarpsins hættum við við það og gerðum, til samkomulags eða málamiðlunar við nokkurn hluta þingheims sem taldi að einhvers konar álagsgreiðslur væru réttlætanlegar, tillögu um að öll kjör alþingismanna yrðu sett undir kjararáðið.

Nú þegar þetta er flutt í þriðja sinn hafa bæst í hópinn einir tíu þingmenn þannig að nú erum við 12 sem flytjum þetta mál. Þeir eru auk mín hv. þingmenn Valgerður Bjarnadóttir sem ég minntist á áðan, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Skúli Helgason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lúðvík Geirsson, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Guðmundur Steingrímsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fólk úr fjórum þingflokkum og einn óháður þingmaður að auki. Ég þakka þeim öllum fyrir þann stuðning sem þau veita þessu máli með því að flytja það með mér.

Ég ætla ekki að rekja sögu þessa frumvarps sem er nú orðin nokkuð skrautleg heldur bendi á greinargerðina sem því fylgir og læt þessari ræðu lokið. Ég legg áherslu á að hér er um að ræða tillögu um siðbót á Alþingi sem Alþingi og samfélagið þurfa svo sannarlega á að halda og legg að lokum til að málið gangi til 2. umr. og hinnar háu umhverfis- og samgöngunefndar þar sem aðrar þær nefndir sem hafa fengið þetta mál hafa ekki sinnt því með neinum þeim hætti sem siðlegur getur talist.