141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans kemur fram að hægt hafi á fjárfestingum í hagkerfinu. Fjárfestingar eru enn, og verða í nokkur ár, undir langtímameðaltali. Ástæðan sem bankinn gefur upp er sú að fjárfestingar hafi frestast og það dylst engum að bankinn vísar með því til stóriðjuframkvæmda.

Við vitum öll að enn ein stóriðjuframkvæmdin mun auka verulega fjárfestingar, ekki síst í ljósi þess að stóriðjufyrirtæki vilja gott sjúkrahús í klukkustundar radíus frá verksmiðjunni. Hagvöxturinn verður hins vegar tímabundinn þar sem virðisaukinn í stóriðjunni er lítill. Seðlabankinn minntist ekkert á viðvarandi skort á fjármagni til að kosta nýsköpunarstarfsemi og uppbyggingu í nýjum atvinnugreinum. Skorturinn er til kominn vegna þess að lífeyrissjóðirnir gleypa stærstan hluta sparnaðar í landinu en sjóðirnir eiga að fjárfesta í öruggum fjárfestingum eins og ríkisskuldabréfum.

Seðlabankinn minntist heldur ekkert á hátt vaxtastig hér á landi sem er að sliga ofurskuldsett fyrirtæki og heimili í landinu. Peningastefnunefndinni fannst ástæða til að þyngja byrðarnar örlítið meira í morgun og hækkaði stýrivexti í 6%. Sú ákvörðun sýnir að peningastefnunefndin hefur engan skilning á því sem er að gerast í íslensku efnahagslífi.

Frú forseti. Stýrivaxtahækkun styrkir ekki gengið og dregur ekki úr verðbólgu, eins og segir í hagfræðiskólabókum, heldur veikir gengið og eykur verðbólgu þar sem vaxtagreiðslur til hrægammasjóða og aflandskrónueigenda aukast þar sem þær má senda úr landi.