141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég kýs að gera fyrirhugaða uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss að umtalsefni. Líkt og svo margir sem ég hef rætt við undanfarnar vikur skil ég ekki alveg fyrirætlanir stjórnvalda í þessu stóra máli. Ég hef fylgst með umræðunni en er litlu nær um hvaða þýðingu þetta risavaxna verkefni hefur fyrir mig sem Íslending. Ég finn fyrir vaxandi efasemdum um að við séum að feta rétta slóð í þessum efnum. Ótal spurningum er ósvarað. Hvað kostar þetta og hvaðan eiga peningarnir að koma? Er pláss fyrir nýjan spítala á þeim stað sem fyrirhugaður er?

Mér skilst að yfir 800 athugasemdir hafi borist borginni vegna fyrirhugaðs deiliskipulags. Hreppsnefnd Kjósarhrepps hefur einnig gert athugasemdir og bent réttilega á að þetta sé ekki eitthvert smámál sem hafi bara áhrif í einu sveitarfélagi. Formaður skipulagsráðs Reykjavíkur lætur reyndar hafa eftir sér í fjölmiðlum að erfitt sé að sjá hvernig þessi breyting á svæðisskipulagi kemur við Kjósverja. En þetta er ekki einkamál Landspítalans eða Reykjavíkur, þetta varðar alla Íslendinga sem hafa flestir litla möguleika á að koma athugasemdum á framfæri. Þótt allt bendi til að um sé að ræða eina mestu framkvæmd sem þjóðin hefur ráðist í á seinni tímum og samhliða því eina mestu skipulagsbreytinguna í íslensku heilbrigðiskerfi sem um getur er þjóðin ekki spurð álits.

Sumir halda því fram að verið sé að laga allt íslenska heilbrigðiskerfið að starfsemi Landspítalans. Heilbrigðisstofnanir úti um land hafa tekið gríðarlegum breytingum, breytingum sem miða fyrst og fremst að því að færa þjónustuna í auknum mæli til Reykjavíkur og Akureyrar. Niðurskurðurinn er víða svo mikill að hann er ekki lengur forsvaranlegur.

Í samræmi við það sem ég hef reifað hér hef ég lagt fram skriflega fyrirspurn til hæstv. velferðarráðherra og verður henni vonandi dreift til þingheims í dag.