141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni um áhyggjur af stöðu lögreglumála á landsbyggðinni. Ég lýsi fullum stuðningi við þær tillögur sem hann lagði fram og gerði að umtalsefni í ræðu sinni.

Mig langaði að ræða atvinnuleysi. Í gær og í dag voru birtar nýjar tölur um stöðu atvinnuleysis á Íslandi, bæði frá Hagstofunni og Vinnumálastofnun. Áhyggjuefnið er — sem fyrr — að atvinnulausum fjölgar á Íslandi, áhyggjuefnið er að störfum hér á landi virðist ekki fjölga. En það er annað sem vekur eftirtekt mína í þessum tölum og það er mismunurinn á tölfræði frá opinberum aðilum um atvinnulausa.

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands sem var birt í morgun voru í október 2012 að jafnaði 178.500 manns á vinnumarkaði. Af þeim voru 170.400 starfandi og 8.100 án vinnu og í atvinnuleit.

Mannafli á vinnumarkaði samkvæmt áætlun Vinnumálastofnunar var hins vegar 157.638 í október 2012. Atvinnuleysistölunni ber nánast saman hjá þessum tveimur aðilum en það munar tæplega 21 þús. manns á tölum Hagstofunnar og tölum Vinnumálastofnunar þegar kemur að stærð vinnumarkaðarins. Það þarf að kanna hvað veldur þessum mismun.

Síðan er annað áhyggjuefni með þá (Forseti hringir.) sem missa bótarétt eftir að hafa verið á atvinnuleysisskrá í fjögur ár og detta út núna um áramótin. Á Suðurnesjunum (Forseti hringir.) einum falla til dæmis 166 manns út af skránni um áramót þannig að þótt atvinnuleysið minnki hverfur vandinn ekki.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir þingmenn á að virða tímamörk. Ræðutíminn er tvær mínútur í þessari umræðu.)