141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér er það mikil ánægja að greina frá því í þingsal að sérfræðingahópur sá sem fenginn var til að rýna tillögur stjórnlagaráðs skilaði á mánudaginn var niðurstöðu sinni og mjög vandaðri vinnu. Eins og þau sögðu sjálf voru leiðarljósin við vinnuna eftirfarandi:

Virðing fyrir því ferli sem er í gangi og þeirri vinnu sem hefur átt sér stað.

Virðing fyrir því umboði sem þau fengu frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Ábyrgð vegna mikilvægis verkefnisins og þess að útkoman verði sem best.

Vilji til að koma með uppbyggilegar ábendingar á faglegum grundvelli um önnur atriði en þau sem umboðið náði strangt til tekið til.

Virðulegi forseti. Nú er verið að undirbúa frumvarpið og greinargerð til framlagningar í þinginu og standa vonir til þess að 1. umr. fari fram í næstu viku. Þá hefst hin þinglega meðferð og frumvarpið verður rætt við þrjár umræður. Því hefur verið haldið fram að engin efnisleg umræða hafi verið í þinginu um tillögur stjórnlagaráðsins til þessa. Ég er ekki sammála því, en ætla ekki að þjarka meira um það.

Nú munum við takast á við þetta mikilvæga verkefni, en ég efa að nokkurn tíma hafi jafnmikill og jafnvandaður undirbúningur verið að nokkru frumvarpi og því sem hér er lagt fram. Það hæfir viðfangsefninu. Það er von mín, virðulegur forseti, að við getum sameinast um að ræða frumvarpið af þeirri virðingu sem það á skilið.

Ég vil loks geta þess að þeir sérfræðingar sem við leituðum til voru Guðmundur Alfreðsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og Háskólann í Strassborg, Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við Háskóla Íslands, Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við Háskóla Íslands, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri og sérfræðingur við Háskólann í Reykjavík. Við leituðum einnig til Ragnhildar Helgadóttur, prófessors við Háskólann í Reykjavík, en henni var (Forseti hringir.) sagt að minnka við sig vinnu af læknisfræðilegum ástæðum og þurfti því frá að hverfa. Ég þakka þeim sérstaklega mjög vönduð og vel unnin störf.