141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Í skýrslu þessara sérfræðinga meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem skilað var til nefndarinnar í vikunni eru gerðar 75 efnislegar breytingar á tillögum stjórnlagaráðs. Í skilabréfi nefndarmanna eru enn fremur verulegar aðrar ábendingar um bæði skjalið sjálft og ferli málsins. Þeir fulltrúar sem sátu í nefndinni, og þrír þeirra komu fyrir nefndina á mánudaginn var, kalla eftir því að heildaráhrif breytinganna verði metin. Það hefur ekki verið gert. Enn hefur ekki farið fram skoðun á heildaráhrifum breytinga vegna frumvarps sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hyggst leggja fram eftir helgi. Það er algjört grundvallaratriði, virðulegi forseti, að slík athugun fari fram og það er enn fremur algjört grundvallaratriði að hún fari fram áður en frumvarpið er lagt fram til 1. umr. í þinginu.

Þá kemur fram í áliti nefndarinnar að rétt sé að leita til sérfræðinga, ekki síst erlendra, þegar kemur að þessu máli. Ég tek undir með þeim sem unnu þessa skýrslu um að það eigum við að gera. Það er ekkert tímahrak í þessu máli, það er allt of mikilvægt til að við búum til óþarfa tímafresti og látum undir höfuð leggjast að líta til þessara grundvallaratriða. Ég mun því í starfi mínu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fara fram á að slíkir aðilar verði fengnir að verkinu. Ég fer enn fremur fram á það að þessu verki verði (Forseti hringir.) áfangaskipt, virðulegi forseti, svo hægt sé að vinna það þannig að einhver sómi verði að fyrir þingið.