141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég er frekar hugsi eftir ræðu hv. þm. Helga Hjörvars vegna skuldavanda heimilanna. Eins og kom fram hefur hv. þingmaður margoft lýst því yfir að grípa þurfi til aðgerða og rammar sérstaklega inn hér að það sé sá hópur sem tók lán á árunum 2004–2009. Þingmaðurinn lýsir því yfir að hann hafi lagt fram tillögur þess efnis en til þess að þær fari í gegn þurfi að skipta um framvarðarsveitina í þingflokkunum, í stjórnmálaflokkunum. Má þá lesa það í orð hv. þm. Helga Hjörvars að til þess að tillaga hans nái framgangi í hans eigin flokki þurfi að bíða eftir formannsskiptum? Var hann að segja það? Það er það sem mér heyrðist hægt að lesa út úr orðum þingmannsins.

Ég ætlaði annars að ræða um húsnæðiskerfið vegna þess að við þurfum bæði að taka á þeim skuldavanda sem fyrir er og eins að ræða með hvaða hætti við ætlum að haga húsnæðismálum þjóðarinnar til framtíðar. Við erum með Íbúðalánasjóð sem hefur verið í samkeppni við einkabanka um að lána fjármuni til húsnæðiskaupa. Ég tók eftir því að hv. þm. Mörður Árnason vísaði í grein Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, um að nú þurfi að stokka allt húsnæðiskerfið upp. Ég er sammála því að við þurfum að fara í breytingar á húsnæðiskerfinu, en hvers vegna hafa slíkar tillögur ekki litið dagsins ljós undir forustu Samfylkingarinnar, þingflokks hv. þm. Marðar Árnasonar? Hvers vegna hefur ekki verið tekið á þeim vanda sem Íbúðalánasjóður er í? Hvers vegna blandaði hv. þm. Mörður Árnason sér ekki í umræðurnar um breytingar á Íbúðalánasjóði sem áttu sér stað í vor? Við hv. þingmenn úr Sjálfstæðisflokknum reifuðum þær skoðanir okkar að það þyrfti að fara í endurskoðun á því með hvaða hætti sjóðurinn starfar, m.a. á samkeppnismarkaði. Ég hef kannski sterkari skoðanir á því en margir í mínum flokki, en breytingar þurfa að eiga sér stað. Við þurfum að horfast í augu við það (Forseti hringir.) að við þurfum að skera kerfið upp. Ég er sammála Gylfa Arnbjörnssyni um það.