141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð síðasta ræðumanns um að svo virðist vera á kosningavetri að Samfylkingin hafi steingleymt því að hún er búin að vera fimm ár í ríkisstjórn. Hún hefur verið fimm ár í ríkisstjórn og kemur svo hér, greinir vandamál og kallar eftir úrbótum.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kallaði eftir auknu fjármagni til lögreglunnar, lögreglunnar sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um í mörg ár. Hv. þm. Mörður Árnason kallar eftir því að skera þurfi upp íbúðalánakerfið hér á Íslandi. Við framsóknarmenn höfum alltaf staðið vörð um fjölskyldurnar í landinu. Þessir hv. þingmenn hafa augljóslega gleymt því að þeir hafa farið með ríkisstjórnartaumana bráðum í fimm ár.

Virðulegi forseti. Batnandi manni er best að lifa. Úr því að þingmenn Samfylkingarinnar eru nú orðnir áfram um að það þurfi að bæta ýmislegt í íslensku samfélagi ætla ég að minna á að atvinnuleysi er enn að aukast og nú eru rúmlega 8 þús. Íslendingar atvinnulausir. Rúmlega 8 þús. Íslendingar hafa flutt af landi brott síðan á haustdögum 2008. 5% Íslendinga borða sig ekki sadda á hverjum degi. Það eru 16 þús. manns og svo sagði hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra á fundinum í Háskólabíói í gær að hér væri allt í himnalagi og mikil bjartsýni hjá ríkisstjórninni.

Virðulegi forseti. Við þurfum að taka höndum saman og reyna að koma málum í lag. Það verður ekki gert í tíð þessarar ríkisstjórnar vegna þess að hún hefur að mestu sóað ríkisfé í gæluverkefni eins og (Forseti hringir.) ESB-umsóknina og, takið eftir, þróunarhjálp hjá öðrum ríkjum þegar Íslendingar sjálfir svelta. [Háreysti í þingsal.]

Frú forseti. (Forseti hringir.) Þetta er ekki vinstri velferðarstjórn.