141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

byggðamál.

[15:50]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í þessu máli held ég að nauðsynlegt sé að allir stjórnmálaflokkar í þinginu líti í eigin barm og viðurkenni ákveðið andvaraleysi eða stefnuleysi í málefnum þeirra byggða sem eiga við mestan vanda að etja. Stefnu í byggðamálum á Íslandi hefur skort um langt árabil, eins og fram hefur komið í máli annarra, og vandi byggðanna er meðal annars tilkominn vegna þess.

Þóroddur Bjarnason, formaður stjórnar Byggðastofnunar, er meðal þeirra sem hafa greint vandann skýrast og best. Eins og kom ágætlega fram í máli hæstv. forsætisráðherra hefur Þóroddur Bjarnason skilgreint ákveðin varnarsvæði landsbyggðanna þar sem vandinn er áþreifanlegastur. Þar búa 8% þjóðarinnar, það eru öll ósköpin, 25 þúsund manns. Sjáum til dæmis umræðuna um húshitunarkostnaðinn og jöfnun hans. Þar er fyrst og fremst verið að ræða um 10% landsmanna sem búa við það óréttlæti að þurfa að greiða mun meira fyrir húshitun en aðrir í landinu. Við eigum að ráða við að lagfæra það óréttlæti.

Þótt margt hafi áunnist á liðnum árum sést að ekki er jafnt gefið. Skoðum hlutfall opinberra starfa, skiptingu skatttekna, flutningskostnað og aðgang að lánsfé.

Ég vil segja þetta: Einhendum okkur í að skilgreina vandann. Fáum okkar færustu sérfræðinga á þessu sviði til liðs við okkur, formann stjórnar Byggðastofnunar þeirra á meðal, til að vinna tillögur hratt og vel. Tökum síðan mark á þeim og hrindum þeim í framkvæmd. Þessi málefni eiga að varða okkur öll, hvar í flokki sem við stöndum og hvar á landinu sem við búum.

Ég sat lengi í bæjarstjórn vestur á fjörðum og hlustaði á margar loforðsræður ráðamanna ríkisins í þessum efnum. Hættum að tala bara um hlutina og förum að grípa til róttækra aðgerða. Það er orðið löngu tímabært að standa við öll stóru orðin um eflingu byggðanna.