141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

byggðamál.

[15:52]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Versnandi staða landsbyggðarinnar er ekki náttúrulögmál. Höfuðborgin aflar um 42% ríkistekna en hún eyðir ríflega 70% þess sem kemur í ríkiskassann. Það er ekki náttúrulögmál.

Það er gott að búa úti á landi í námunda við hreina náttúru, í göngufæri við vinnustað og í skjóli umhyggjusams nærsamfélags. En þau lífsgæði að vera landsbyggðarmaður kosta. Húshitun á köldum svæðum er þrefalt dýrari en í Reykjavík, það er mannleg ákvörðun, vöruverð er umtalsvert hærra vegna flutningskostnaðar sem veltur á samgöngum og því er hægt að breyta. Samgöngur eru víða erfiðar, raforkan ótrygg, internetið lélegt. Allt eru þetta forsendur þess að atvinnulíf og byggð fái þrifist og allt eru þetta forsendur sem hægt er að breyta ef vilji og heildarsýn er fyrir hendi.

Þróunin á landsbyggðinni er afleiðing ákvarðana, til dæmis þeirrar að afhenda fiskveiðiauðlindina útvöldum hópi og færa þeim óðalsrétt á þjóðarauðlind án endurgjalds til samfélagsins. Af þeirri ákvörðun hefur hlotist mikil atvinnu- og byggðaröskun. Hin margrómaða hagræðing í sjávarútvegi varð á kostnað samfélagsins því daginn sem skipið er selt eða útgerðarmaðurinn selur kvótann og fer með auðæfi sín úr byggðarlaginu situr eftir byggð, atvinnulaust fólk með verðlitlar fasteignir og kemst hvergi en unga fólkið lætur sig hverfa til náms og kemur ekki aftur. Það þýðir ekki að tala um byggðaröskun sem eðlilega þróun. Slík þróun er mannanna verk. Hún stafar af misviturlegum ákvörðunum og skeytingarleysi um yfirlýst stefnumið laga um jafnan búseturétt og það á við um góðærin fyrir hrun ekkert síður en aðra tíma. (Forseti hringir.) Til að jafna stöðu byggðanna þarf einfaldlega að taka réttar ákvarðanir í samgöngumálum, atvinnu- og auðlindamálum, (Forseti hringir.) við uppbyggingu stofnana og þjónustu. (Forseti hringir.) Byggðahnignunin er ekki náttúrulögmál, frú forseti. Það þarf bara að láta verkin tala því að stefnan er til.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir enn á ræðutímann og biður hv. þingmenn að virða hann.)

Hann er allt of stuttur.