141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

byggðamál.

[16:10]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Herra forseti. Hér er til umræðu svört skýrsla Byggðastofnunar frá því í júní sem er reyndar framhald skýrslu frá árinu 2008 sem er framhald nokkurra eldri skýrslna. 30 sveitarfélög eru undir í þessari skýrslu. Allir stjórnmálaflokkar lofuðu bót og betrun fyrir kosningarnar 2009. Efndir hafa verið litla sem engar.

Hér höfum við rætt um að íbúum á svæðum hafi fækkað úr 12% í 50%. Fækkað hefur í yngri aldurshópum. Talað er um fjölgun starfa á landsbyggðinni, sem er mjög auðvelt í rafrænu kerfi í dag, og að á köldum svæðum þurfi íbúar að borga 13. mánuðinn til að standa jafnfætis íbúum á heitum svæðum, verslun og annað. Miklar áhyggjur voru vegna niðurskurðar hins opinbera, ekki síst varðandi heilbrigðisþjónustu. Viðmælendum þótti gæta skilningsleysis hjá stjórnvöldum og fannst að gjá milli landsbyggðar og höfuðborgar hefði dýpkað.

Í mínum augum er verst að þessi niðurskurður hefur bitnað verulega á kvennastörfum á landsbyggðinni. Íbúum á landsbyggðinni er enn mismunað og ekki er gætt jafnræðis. Í nokkrum þessara sveitarfélaga, ég nefni Skaftárhrepp og Raufarhöfn, ríkir neyðarástand. Þau eru ekki sjálfbær og þær tillögur sem hafa verið nefndar í umræðunni duga ekki til.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaða sértækar tillögur hefur Byggðastofnun lagt fram sem hann hyggst leggja fram í framhaldinu?

Dapurt dæmi um þessa mismunun er að aukaframlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga voru 800 milljónir árið 2011, 350 milljónir 2012, aðallega til Álftaneshrepps, en í fjárlögum í ár hafa þau verið felld niður. Það er kvöld kveðja og ámælisverð.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hyggst ríkisstjórnin bæta hér úr og bæta verulega í aukaframlög? (Forseti hringir.)

Því miður hefur vandi landsbyggðarinnar aukist á kjörtímabilinu. Vilji er allt sem þarf í þessum efnum.