141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

byggðamál.

[16:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem vekja væntingar um að gripið verði til raunhæfra aðgerða gagnvart veikburða byggðum á landsbyggðinni. Vissulega eru miklar vonir bundnar við sóknaráætlun landshlutanna og að fjárfestingaráætlun ríkisins skili sér í markvissri uppbyggingu í góðu samstarfi við heimamenn, sveitarstjórnir, aðila vinnumarkaðarins og opinberar stofnanir á þessum svæðum.

Ég held að það sé í raun þjóðarsátt að standa vörð um hinar dreifðu byggðir landsins en kjark hafi vantað til að horfast í augu við þá þætti sem valdið hafa hvað mestri fólksfækkun. Allt of miklar smáskammtalækningar hafa verið í gegnum tíðina í stað þess að byggðirnar njóti jafnræðis í búsetuskilyrðum og fái að njóta þeirra náttúrugæða og auðlinda sem þær hafa fyrst og fremst byggst upp á.

Ef þingið sammæltist til dæmis um að klára háhraðatengingar á landsbyggðinni, bæta dreifikerfi RÚV, setja upp þriggja fasa rafmagn þar sem þörf er á og jafna orku- og flutningskostnað mundi það strax vera gífurleg innspýting og styrking fyrir byggðirnar. Þetta erum við búin að tala um í áratugi, fyrir utan að breyta kvótakerfinu sem ég tel vera gífurlegt byggðamál.

Miklar fjárfestingar liggja í innviðum byggða um allt land og þær fjárfestingar eru ekki síður mikilvægar fyrir þjóðarhag í heild. Byggðarlög eins og Raufarhöfn hafa skapað mikinn gjaldeyri í gegnum tíðina og lagt mikið til uppbyggingar þjóðfélagsins. Íbúar þar eiga því allt gott skilið þegar illa árar sem og önnur veikburða byggðarlög sem þurfa á aðstoð að halda. Stefna hins opinbera þarf ekki að öllu leyti að ráðast af hagkvæmninni einni saman né heldur þurfa markaðsöflin ein að ráða för, heldur skiptir gildismat samfélagsins miklu máli og hvernig samfélag við viljum sem þjóð að þróist í landinu. Jöfnun búsetuskilyrða í landinu (Forseti hringir.) telst til mannréttinda sem Alþingi á að geta sameinast um eins og hefur komið fram í máli manna.

Ég vil að lokum þakka fyrir þessa þörfu og góðu umræðu um (Forseti hringir.) stöðu landsbyggðarinnar. Ég heyri að mikill samhljómur er í þingsal um þessi brýnu mál.