141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[16:18]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Í frumvarpinu er lagt til að við ákvæði laganna um samningsumboð til handa Sjúkratryggingum Íslands vegna samninga um heilbrigðisþjónustu verði bætt inn nýrri málsgrein um heimild ráðherra til að setja reglugerð um nánari útfærslu greinarinnar. Þá er lagt til í frumvarpinu að gildistökuákvæði um að Sjúkratryggingar Íslands annist gerð samninga við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili verði frestað um tvö ár, eða til 1. janúar 2015.

Samkvæmt lögum um sjúkratryggingar skal sjúkratryggingastofnun semja við heilbrigðisstofnanir, sveitarfélög, sjálfseignarstofnanir, fyrirtæki og einstaklinga um kaup á heilbrigðisþjónustu og greiða veitendum heilbrigðisþjónustu endurgjald samkvæmt samningi. Í samræmi við það annast Sjúkratryggingar Íslands nú gerð samninga sem áður voru á hendi samninganefndar ráðherra og samninga sem heilbrigðisráðuneytið gerði áður. Lögin tóku gildi 1. október 2008, en gert var ráð fyrir að ákvæði um samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili kæmu til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2010. Gildistöku þeirra ákvæða hefur hins vegar verið frestað með lögum í þrígang, eitt ár í senn.

Að óbreyttu mun ákvæði um samninga um heilbrigðisþjónustu við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins taka gildi 1. janúar 2013. Frá þeim tíma munu Sjúkratryggingar Íslands taka við samningagerð um veitingu eða kaup á heilbrigðisþjónustu við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins, þ.e. sjúkrahús og heilsugæslustöðvar. Þar með eiga Sjúkratryggingar Íslands meðal annars að semja við Landspítala, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og svæðisbundnar heilbrigðisstofnanir um kaup á heilbrigðisþjónustu og greiða þeim endurgjald samkvæmt samningi í samræmi við 39. gr. laganna.

Í athugasemdum við 39. gr. kemur meðal annars fram að sjúkratryggingastofnunin taki við hlutverki sem heilbrigðisráðuneytið hefur sinnt á sviði samningsgerðar við heilbrigðisstofnanir og fjárveitingar til heilbrigðisstofnana. Ákvæði 39. gr. sjúkratryggingalaga, um umboð sjúkratryggingastofnunar til samningagerðar, eru afar opin og kunna að leiða til óvissu um framkvæmd þrátt fyrir 4. gr. laganna þar sem segir að ráðherra fari með yfirumsjón sjúkratrygginga og samningagerðar um heilbrigðisþjónustu og aðra aðstoð samkvæmt lögunum og yfirstjórn sjúkratryggingastofnunar. Þetta á einnig við þó að í 2. gr. laganna segi að ráðherra marki stefnu innan ramma laganna, laga um heilbrigðisþjónustu og annarra laga og að ráðherra sé enn fremur heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja þeirri stefnu, meðal annars hvað varðar skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hagkvæmni, gæði og öryggi þjónustunnar og aðgengi að henni.

Vegna þessa þykir því rétt að bæta við 39. gr. nýrri málsgrein þar sem kveðið er á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um tegund og umfang þeirrar heilbrigðisþjónustu sem sjúkratryggingastofnun semur um, meðal annars hvað varðar heilbrigðisþjónustu á heilbrigðisstofnunum í eigu ríkisins.

Rétt er að geta þess að ekki er gert ráð fyrir að sett verði reglugerð um gerð samninga við ríkisreknar heilbrigðisstofnanir fyrr en tekin hefur verið ákvörðun um að fela stofnuninni aukna samningsgerð, en slíkt krefst aukins mannafla og fjármagns.

Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar er nú unnið að undirbúningi á flutningi málefna aldraðra til sveitarfélaga og er stefnt að því að flutningurinn komi til framkvæmda í síðasta lagi 1. janúar 2015. Því þykir eðlilegra að ákvarðanir um fyrirkomulag samninga og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og skilgreiningu heilbrigðisþjónustu sem veitt verði á hjúkrunarheimilum verði teknar í tengslum við undirbúning flutnings málaflokksins til sveitarfélaga og er gert ráð fyrir að Sjúkratryggingar Íslands komi að þeirri vinnu.

Því er lagt til að gildistökuákvæði laganna, um samninga við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili, verði frestað til 1. janúar 2015. Af því leiðir að framlengja þarf heimild í ákvæði til bráðabirgða IV, heimild til ákvörðunar á daggjöldum vegna hjúkrunarrýma með reglugerð. Lagt er til að sú heimild verði sömuleiðis framlengd um tvö ár.

Með vísan til framangreinds þykir rétt að fresta um sinn gildistökuákvæði um samninga við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili. Lagt er til að gildistöku verði frestað í tvö ár. Jafnframt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða IV, um heimild til ákvörðunar á daggjöldum vegna hjúkrunarrýma með reglugerð, verði framlengt til sama tíma.

Haft var samráð við Sjúkratryggingar Íslands, en afstaða stofnunarinnar var sú að mikilvægt væri að lögin taki að fullu gildi um næstu áramót þannig að ágreiningur var við ráðuneytið um þann þátt. Þá var haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Í mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á kostnaðaráhrifum frumvarpsins kemur fram að verði frumvarpið óbreytt að lögum verði ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð að minnsta kosti ekki fyrst um sinn.

Eins og fram hefur komið felst í frumvarpinu ákvæði um heimild til ráðherra til að setja reglugerð um nánari útfærslu á samningsumboði og frestun lokaáfanga á flutningi samningsgerðar til Sjúkratrygginga Íslands.

Hef ég nú gert grein fyrir hvoru tveggja. Ég legg áherslu á það sem hér er lagt til, þ.e. að ákvæði sem annars tekur gildi 1. janúar 2013 verði frestað um tvö ár. Það er nauðsynlegt að frumvarpið verði því að lögum á haustþingi. Leyfi ég mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.