141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[16:33]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er beinlínis hlægilegt að hlusta á það hjá hv. þingmanni að þetta snúist um það hvernig þjónustan er veitt sjúklingum. Þetta snýst um hvernig við getum búið til umhverfi um samkeppni, kaup og sölu á skilgreindum verkefnum. Það verður að segjast nákvæmlega eins og er að við þær aðstæður sem við höfum búið höfum við ekki náð tökum á því sem hv. þingmaður nefnir, að færa til og búa til samningateymi á einum stað. Við höfum verið í vandræðum og ekki náð að halda samningum hvorki við sérgreinalækna, sem er þó verkefni sjúkratrygginga, né tannlækna. Við höfum ekki náð þeim inn á samning frekar en fyrrverandi ráðherrar. Við skulum ræða það á þeim forsendum. Það er ekki verið að tala um þjónustuna við fólkið.

Það er líka verið að gera tillögu um að ráðherra fái leyfi í gegnum reglugerð til að taka upp samninga á einstökum stofnunum í framhaldinu þannig að hægt sé að stíga ákveðin skref. Aftur á móti þykir ekki eðlilegt að byrja á því að gera samninga við einstakar stofnanir í öldrunarmálaflokknum fyrr en við vitum, og getum sammælst um það við sveitarfélögin, hvaða þjónustustig eigi að vera á þeim þannig að þeir sem eiga að taka við málaflokknum séu við borðið þegar við skilgreinum um hvað á að semja. Það er byrjað á öfugum enda með því að semja við einstök hjúkrunarheimili áður en við skilgreinum samningsmarkmiðin og þau gæði þjónustunnar sem þar eiga að vera.

Þetta snýst á engan hátt um þjónustu við sjúklingana. Þetta snýst um það að við höfum haft af því svolítil vandræði hvernig hefur verið búið um kerfið og stöðu þeirra sem eru með einkafyrirtæki á markaðnum. Það er það stór hópur, um 400–500 þús. heimsóknir til sérgreinalækna, að við höfum ekki getað lagt þá þjónustu af. Enda engin ástæða til, við höfum viljað hafa þá þjónustu. Því miður hafa sjúkratryggingar, ráðuneytið og við sem að þessu störfum ekki getað haldið þeim samningum og við höldum áfram að borga þjónustuna til fólksins.

Ég kom hér upp til að vekja athygli á því að þetta snýst ekki um þjónustuna við sjúklingana heldur um ytri umgjörð í samkeppnissamfélaginu okkar. Hvort það sé raunveruleg samkeppni, þvinguð samkeppni eða fákeppni. Þess vegna höfum við frestað þessu. Við viljum stíga skrefin varlega. Þess vegna er sett inn reglugerðarheimild en ekki bein frestun á þeim kafla en vinna er í fullum gangi við að skilgreina gæðaþjónustu öldrunarheimilana sem fyrst. Við höfum ákveðið að gefa okkur tíma því að svona yfirfærsla á að taka tíma og á að vinnast í samstarfi sveitarfélaga og ríkisins. Ég vona að þetta fái framgang. Það skiptir miklu máli.

Ágreiningurinn sem hefur verið um sjúkratryggingar hefur fyrst og fremst verið um að sjúkratryggingar telja að þeir hafi heimild við núverandi lög til þess að vera ekki með samninga, þ.e. að ráðuneytið geti eftir sem áður ákveðið að það þurfi ekki að gera samninga. Lögfræðingar í velferðarráðuneytinu hafa metið ákvæðin í lögunum það afdráttarlaust að sú heimild að fresta samningum sé ekki hjá ráðherra ef ekki er lagaheimild og þess vegna kemur þetta hér inn sem frumvarp. Það er ekki endilega ágreiningur um það hvaða verkefni viðkomandi stofnun á að vinna.