141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[16:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var nú ekki eins og hæstv. ráðherra væri hlátur í huga þegar hann flutti þessa ræðu enda er þetta grafalvarlegt mál. Samningar við ríkisstofnun snúast ekki um samkeppnisumhverfi. Það er öllum ljóst að stór hluti, og kannski langstærsti hluti, heilbrigðisþjónustu á Íslandi verður aldrei rekinn í neinu samkeppnisumhverfi. Hér eiga ekki við hefðbundin samkeppnisumhverfi eins og er á mörgum öðrum sviðum. Það mætti í rauninni segja að hugmyndin á bak við stofnun sjúkratrygginga væri í rauninni mjög samkeppnishamlandi því hugmyndin er að setja alla samningagerð á einn stað til þess að ná sem bestum samningum fyrir ríkið og fyrir sjúklingana. Það er auðvitað þvert á anda samkeppni.

Hæstv. ráðherra ætti að vita að til dæmis Landspítalinn hafði forgöngu um, og það er öfugt við það sem gerist í flestum öðrum löndum, að kostnaðargreina þjónustu. Vanalega er það þannig í þeim löndum sem við berum okkur saman við að hið opinbera hefur gengið í það að kostnaðargreina og stofnanir gengið á eftir.

Það er alveg ljóst að við verðum ekki með marga landspítala. Langstærsti hlutinn af þeirri þjónustu sem þar er veitt verður bara veitt þar. Það að fela Sjúkratryggingum Íslands að semja við ríkisstofnanir snýst ekkert um samkeppni. Það snýst um fagleg vinnubrögð. Það snýst um að við skilgreinum hvaða þjónustu við ætlum að veita og kostnaðargreinum hana og að við náum sem hagstæðustum samningum fyrir sjúklingana sem þurfa á þeirri þjónustu að halda.

Það að halda því fram og tala í þessu samhengi um að hér sé eitthvað í fullum gangi hljómar ekki sannfærandi þegar menn koma hér í lok kjörtímabils (Forseti hringir.) og fresta málinu enn og aftur.